Ford Ranger M-Sport lítur út eins og smár Raptor

189

Millistærðar pallbíll Ford hefur fengið yfirhalningu frá M-Sport og af útlitinu að dæma er um smærri bróður Ford F-150 Raptor að ræða.

M-Sport sýndu bílinn á Abentreuer & Allrad torfærusýningunni í Þýskalandi í samstarfi við Van Sport. Ranger með 3.2L Duratorq L5 dieselvél er grunnurinn að Ranger M-Sport en vélin er 197 hestöfl og togar 470 Nm. Ekki hefur verið átt við vélina að öðru leiti en að nýtt pústkerfi er komið undir.

Útlitsbreytingar telja meðal annars breytingu á stuðurum, stærri brettakanta, svört hliðarspeglahús, sílsabretti og Lazer kastara í grilli og á þaki. Að innan eru sæti leðurklædd.

Bíllinn hefur verið hækkaður um 4,5 cm á fjöðrum með Pedders breytingu á fjöðrunarkerfi og undir öllum bílnum eru grjóthlífar. BF Goodrich dekkin eru á 18″ felgum en ekki fylgir sögu hve stór þau eru. Hvað sýnist mönnum? Skrifið ykkar ályktun í comment að neðan.

M-Sport er keppnislið frá Bretlandi og hét áður Malcolm Wilson Motorsport eftir stofnanda liðisins. M-Sport hefur lengi smíðað og keppt á Ford rallýbílum og hefur meðal annars smíðað og rekið bíla Ford rallýliðsins í WRC rallýinu.

Bíllinn verður kominn í fulla framleiðslu í september og verður markaðssettur í Bretlandi og á völdum mörkuðum í Evrópu gegnum Ford. Sjálfskiptur mun hann kosta um 8 milljónir króna í Bretlandi en um 7,8 milljónir beinskiptur.