Fjórir fornbílar hætt komnir í eldsvoða á Akureyri

1418
Mynd af Jaguar XK120 Roadster-num sem nærri brann inni í nótt. Mynd: Höfundur ókunnur.

Litlu mátti muna að fjórir fornbílar hefðu orðið eldi að bráð þegar eldur kom upp í bif­reiðaverk­stæði við Fjöln­is­götu á Ak­ur­eyri rétt eft­ir klukk­an hálf eitt í nótt.

Fornbílarnir fjórir, 1952 Jaguar XK120 Roadster, 1954 MG TF, 1960 MGA Twincam Coupé og 1973 Jaguar E-Type, eru í eigu Jóns Sigursteinssonar bílasmiðs og bílasafnara frá Akureyri. Bílarnir eru samtals nokkurra tuga milljóna virði hið minnsta en XK120 Jaguarinn efalítið á meðal verðmætustu bíla landsins. Bílar Jóns eru geymdir í húsnæði sambyggðu verkstæðinu sem kviknaði í en samtals hefur Jón varið um tuttugu árum í uppgerð þeirra.

Þetta hefði verið svaka­legt. Þetta eru ekki bara verðmæti, held­ur hefði þetta líka verið til­finn­inga­tjón. Það er búið að leggja sál­ina í þetta. Þeir eru all­ir eins og nýir, betri en nýir. Þetta eru bara safn­grip­ir, þetta er einka­safn. 

sagði Jón Sig­ur­steins­son í sam­tali við mbl.is.

Allt tiltækt slökkvilið Akureyrar var kallað út í nótt þegar eldurinn kviknaði. Eldurinn virðist hafa kviknað þegar maður var að rafsjóða vélarhlíf á bíl á verkstæðinu en engan sakaði þar sem maðurinn komst út úr húsinu í tæka tíð. Mikinn og svartan reyk lagði frá húsinu þegar slökkvilið kom á staðinn og ákveðið var að rífa þakið af húsinu til að freista þess að koma í veg fyrir að eldurinn bærist milli rýma hússins.

Til að freista þess að bjarga bílunum var hurð á geymsluhúsnæðinu brotin upp og slökkviliðsmenn hófust handa við að renna bílunum út. Á þessum tímapuntki var búið að vekja Jón og hann var á leiðinni á staðinn. Þegar slökkviliðsmenn reyndu að færa fjórða og síðasta bílinn út var það hægara sagt en gert þar sem bíllinn var í stýrislás. Þegar Jón mætti á staðinn ók hann bílnum sjálfur út eftir að hafa losað lásinn. Eldurinn náði ekki yfir í geymslurými Jóns og allir eru bílarnir óskemmdir þó Jón geri ráð fyrir að þurfa að þrífa þá eftir hamaganginn.

DEILA Á