Fimm hljómfagrar V8 vélar

493

Maserati GranTurismo MC Stradale var fyrst sýndur á bílasýningunni í París 2010, þá með 450 hestafla 4.7 lítra V8 vél. Bíllinn fékk yfirhalningu fyrir módelár 2013 og afl F136 Y vélarinnar var þá aukið upp í 460 hestöfl og þau duga til að koma 1.670 kg bílnum yfir 300 km/klst múrinn.

Stradale er 110 kg léttari en venjulegur GranTurismo og fjöðrunin 8% stífari. Hann kemur með 6 gíra MC Race flipabeinskiptingu sem skiptir um gír á 60 millisekúndum þegar bíllinn er stilltur á „Race“ ham. Í Bandaríkjunum ber bíllinn ekki Stradale nafnið því þar fæst hann eingöngu með sex þrepa sjálfskiptingu.


Mercedes Benz CLS 63 AMG kemur með 5.5 lítra V8 biturbo vél sem skilar 557 hestöflum og togar magnaða 800 Nm. Hámarkshraði bílsins er 250 km/klst en með ökumannspakka AMG hækkar hann í 300 km/klst. Afturdrifinn er CLS 63 AMG 4,2 sekúndur í 100 km hraða en með 4Matic fjórhjóladrifskerfi Benz, sem bíllinn í myndbandinu er búinn, tekur það bílinn aðeins 3,7 sekúndur.


Red Bull RB9 var síðasti heimsmeistari V8 tímabilsins í Formúlu 1 áður en V6 tvinnvélar tóku við. RS-27-2013 Renault vél bílsins var 2.4 lítrar og 750 hestöfl. Vélin snérist upp í 18.000 sn./mín. Með KERS kerfi gaf rafmótor 80 auka hestöfl og samanlagt afl vélarinnar því 830 hestöfl.

Flestir F1 áhugamenn hugsa með söknuði til þessara véla og hljóðanna sem þær gáfu frá sér en það verður að viðurkennast að V6 tvinnvélarnar hljóma ekki nándar nærri eins fallega, það litla sem í þeim heyrist.


S65 vélin í BMW E90 M3 er 414 hestöfl og togar 400 Nm. Hún kemur bílnum í 100 km hraða á 4,6 sekúndum og hámarkshraði er 286 km/klst án hraðatakmarkarans sem vanalega takmarkar bílinn við 250 km hraða.

Ásamt því að að vera notuð í E90/92/93 var S65 vélin notuð í Wiesmann MF4-S GT/Roadster.


Shelby Daytona Coupe, einnig þekktur sem Shelby Daytona Cobra Coupe, er skyldur AC Cobra og lauslega byggður á undirvagni hans. Shelby Daytona var smíðaður sérstaklega til höfuðs Ferrari 250 GTO. Aðeins sex eintök voru smíðuð árin 1964-’65 þar sem Shelby var fengið það verkefni að vinna að Ford GT40 fyrir keppni í Le Mans. Shelby keppti þó með Daytona Coupe í World Sportscar Championship 1965 og fór með sigur af hólmi. Shelby varð þar með fyrsti bandaríski bílsmiðurinn til að sigra alþjóðlegt keppnistimabil á hæsta stigi mótorsports.

Ford 4.7 L V8 vél bílsins er 385 hestöfl og togar 461 Nm. Shelby Daytona vegur aðeins rétt rúmt tonn svo hlutfall afls og viktar er gríðarlega hagstætt.  Árið 2009 seldist eitt þeirra sex eintaka sem til eru á sjö milljónir dollara, 874 milljónir króna. Það er því ekki daglegt brauð að sjá svona bíl þeysa um kappakstursbraut líkt og í myndbandinu en ef maður ætlaði sér á braut með slíkan bíl er Spa Francorchamps einn af betri kostunum.

Ég held ég brjóti odd af oflæti mínu og leyfi þessum að fá tvö myndbönd.