Fimm hljómfagrar V6 vélar

98

Lotus Exige S V6 var frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt 2011. 3.5L vél Exige S er með blásara og skilar 345 hestöflum og togar 400 Nm. Hún kemur þessum 1.080 kg fjaðurvigtarbíl í 100 km hraða á 3,7 sekúndum og hámarkshraði er í kringum 300 km/klst.

Exige er vanalega með 1.8L fjögurra strokka vél frá Toyota. Til að koma V6 vél í bílinn þurftu Lotus að lengja hann um 25 cm og breikka boddýið um 5 cm.


Lancia Stratos HF Stradale var í framleiðslu frá 1973-78 en aðeins voru 492 eintök framleidd til að fá bílinn samþykktan til keppni á vegum FIA. Lancia sigraði World Rally Championship (WRC) á rallýútgáfu af Stratos árin 1974, 1975 og 1976.

V6 vél Stratos kom úr Ferrari Dino. Hún var 2.4 lítra og 190 hestöfl. Þrátt fyrir að vera ekki ýkja aflmikil dugaði hún til að koma 980 kg bílnum í hundraðið á 6,8 sekúndum og hámarkshraði Stratos var 232 km/klst.


Alfa Romeo 155 V6 TI var keppnisbíll verksmiðjuliðs Alfa Romeo, Alfa Corse, í þýsku touring bíla keppninni (DTM) frá 1993 – 1996. Liðið sigraði bæði í keppni ökumanna og keppni bílsmiða á sínu fyrsta tímabili með bílinn eftir að hafa unnið 11 af 22 keppnum

V6 vél 155 var 2.5 L 60° og skilaði 480 hestöflum við 11.500 snúninga. Eftir afbragðs fyrsta tímabil tók Mercedes við keflinu af Alfa Romeo og hélt því þar til DTM var lagt niður í þáverandi formi 1996. Síðasta keppnistímabil 155 V6 TI árið 1996 mætti Alfa Romeo með nýja V6 vél en sú var einnig 2.5 L en nú 90°. Líkt og fyrri vél skilaði hún 480 hestöflum en á aðeins hærri snúningi eða við 11.900 sn./mín.


Jaguar XE kom á markað í fyrra. Stærsta vélin sem í boði er í bílnum er 3.0L V6 með blásara sem skilar 335 hestöflum og togar 450 Nm. Með henni nær XE 100 km hraða á 5,1 sekúndu og hámarskhraði er 249 km/klst.

Vélin er einnig notuð í F-Type bíl Jaguar en í honum er hún aflminnsta vélin sem er í boði. En það breytir því ekki að hún er afar hljómfögur.


Mazda MX-3 fékkst með einni minnstu V6 vél sem nokkurn tíma hefur verið sett í framleiðslubíl. K8-DE vél bílsins var aðeins 1.8 L og skilaði 130 hestöflum við 6.500 sn./mín. og togaði 156 Nm.

Þrátt fyrir að bíllinn hafi verið lítill og léttur, aðeins um 1.100 kg, var bíllinn enginn spíttkerra. Vélin kom bílnum í 100 km hraða á 8,6 sekúndum.

Bíllinn í myndbandinu er ekki með orginal pústkerfi. En það verður að segjast um hljóðið sem þessi vél getur gefið frá sér að margur er knár þótt hann sé smár.