Fimm hljómfagrar boxervélar

306

2.5L EJ25 vél Subaru er landsmönnum að góðu kunn en Impreza í WRX og STI úrfærslum er einn mest seldi sportbíllinn hérlendis. Frá og með 2006 árgerðum komu WRX og STI með EJ25 vélinni. Í WRX útfærslu skilaði vélin 230 hestöflum og togaði 320 Nm en STI útfærslan 309 hestöflum og 392 Nm. Ótal aftermarket breytingar má fá á vélina, pústkerfi þar á meðal sem ýfa og dýpka fallegt boxerhljóðið.

Í myndbandinu má sjá og heyra í annarar kynslóðar STI keppnisbíl Tim O’Connor & Gareth Sutcliffe með EJ25 vél í Targa Tasmania malbiksrallýinu 2014.


Hér fær ein mótorhjólavél að fljóta með. BMW R51/3 var annað mótorhjólið sem BMW framleiddi eftir seinni heimsstyrjöld, framleitt 1951-55, í kjölfar þess að bandamenn afléttu banni við framleiðslu mótorhjóla sem í gildi var í Þýskalandi eftir stíðið.

Í hjólinu var 494 cc tveggja strokka, 24 hestafla boxervél.


3.0L F6 biturbo vél 2016 Porsche 991.2 Carrera 4S er 420 hestöfl og togar 500 Nm og skilar aflinu út í öll fjögur hjólin gegnum PDK skiptingu Porsche. Margir pjúristar hafa haldið því fram að túrbínurnar í nútíma Carrerum spilli hljóði vélanna en það er þó erfitt að halda því fram að þessi vél sé ekki afburða hljómfögur.


Dieselvélar urðu vinsælar í fólksbílum með tilkomu commonrailtækninnar í kringum aldamótin. Subaru voru heldur seinir til í partýið en þeirra fyrsta dieselvél birtist á bílasýningunni í Genf 2007. EE20 boxer turbodieselvél Subaru er 147 hestöfl og togar 350 Nm og kom fyrst í sölu í Evrópu 2008.

Í myndbandinu má heyra í EE20 vélinni í þriðju kynslóð Impreza bæði með orginal pústkerfi og svo með aftermarket pústi auk endurforritaðrar vélatölvu.


Ferrari Berlinetta Boxer voru fyrstu 12 strokka götubílar ítalska sportbílaframleiðandans með miðjusetta vél, framleiddir í 2.323 eintökum í þremur útfærslum. Enzo Ferrari hafði verið tregur til að miðjusetja vélar bíla sinna en hann hélt því fram að „vagninn elti hestinn“ og trúði því statt og stöðugt að vélin ætti að vera í húddinu. Þegar keppinautar Ferrari fóru að hafa betur á kappakstursbrautunum á sjötta áratugum hlýddi Enzo loks verkfræðingum sínum sem lengi höfðu viljað miðjusetja vélar kappakstursbíla Ferrari.

Ferrari 365 GT4 BB var fyrsti bíll Ferrari með boxervél. Hann var frumsýndur á bílasýningunni í Tórínó 1971 og kom á markað tveimur árum seinna. Vélin var 344 hestafla 4.4L F12. 365 GT4 BB var framleiddur í 387 eintökum 1973-76.

Ferrari BB 512, sem sjá má í myndbandinu, var framleiddur í 929 eintökum 1976-81. Nafnið skýrskotar til 5.0L F12 vélar bílsins en hún var um 360 hestöfl. 1981 kom BB 512i fram á sjónarsviðið en þá var vélin komin með Bosch K-Jetronic CIS innspýtingu. 512i var framleiddur í 1.007 eintökum.

DEILA Á