Fimm forvitnilegir facebookhópar

197

Á facebook er gnægð bílatengdra hópa. Hér að neðan má finna fimm forvitnilega íslenska facebookhópa sem hafa færri en 1.000 meðlimi en þrátt fyrir það eiga þeir það sameiginlegt að vera afskaplega áhugaverðir.


Íslenskt smíðuð ökutæki – Kit bílar og hjól

Hópur áhugafólks um íslenskt smíðuð ökutæki. Söfnum saman áhugafólki, myndum, fróðleik og stuðlum að regluverki sem styður við áhugamálið.

Það kæmi eflaust mörgum sem ekki til þekkja á óvart hve margir bílar hafa verið smíðaðir hérlendis. Allt frá torfærubílum til sportbíla auk að sjálfsögðu yfirbygginga á rútur og jeppa.

Í þessum hópi má ræða allt sem tengist því að smíða ökutæki. Flest tækin rata aldrei á götuna en eru engu að síður virkilega skemmtileg leiktæki til að fara með í gryfjur, út á tún eða í fjörur. Það er alla vega hægt að eiga sér óáhugaverðari áhugamál en að smíða bíl frá grunni.


Packard bílar á Íslandi fyrr og nú

Hópur fyrir áhugafólk og eigendur Packard bíla fyrr og nú. Ef þú lesandi góður átt í fórum þínum gamlar myndir af Packard bíl/bílum teknum hérlendis þá máttu gjarnan pósta þeim hér.

Packard framleiddi sinn fyrsta bíl árið 1899 og starfaði til 1958. Packard bílar þóttu annarra bíla afbragð, ekki síst á árunum eftir stríð.

Fyrsti forsetabíll íslensku þjóðarinnar var 1942 árgerð af Packard 180. Það eintak er enn til og er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en lokið var við uppgerð bílsins, sem kostaði um 25 milljónir króna, árið 2008. En það eru og hafa verið fleiri Packard bílar á landinu og þessi hópur er vettvangur áhugamanna um þetta fornfræga merki hérlendis.


Drift á Íslandi

Íslenskar driftmyndir og myndbönd!

Drift mótorsportið er í örum vexti um allan heim og Ísland fer ekki varhluta af því.

Í hópnum deila áhugamenn um drift myndum og myndböndum, fá og gefa ráð hvor hjá öðrum auk söluauglýsinga og ábendinga um tengda hluti og tæki til sölu.


Bílar í Árnessýslu

Deilið með okkur myndum af bílum úr Árnessýslu.

Í hópnum deila menn með sér myndum af bílum sem í gegnum tíðina hafa verið í Árnessýslu. Þar skapast oft líflegar umræður, ekki síst þegar um myndir af gömlum bílum er að ræða sem margir höfðu komið að á einn eða annan hátt á árum áður.

Áttu mynd af bíl með X númeri? Þá á hún heima í þessum hóp.


Audi á Íslandi

Fyrir Audi áhugamenn og eigendur á Íslandi.

Íslenski Mercedes Benz hópurinn á facebook telur tæplega 3.000 manns og BMW hópurinn rúmlega 5.000. Þar skapast oft líflegar umræður enda menn oft með mikla ástríðu fyrir merkjunum. Audi hópurinn hins vegar telur aðeins brot af meðlimafjölda hinna merkjanna, hvernig svo sem á því stendur.

Audi merkið á sér marga fylgjendur hérlendis, mun fleiri en meðlimafjöldi facebookhópsins segir til um ímynda ég mér, og eru þeir hvattir til að ganga í hópinn, sjálfum sér og öðrum til gleði og gagns. Audi merkið er á siglingu þessi árin og nóg til af áhugaverðum Audi bílum hérlendis og því nóg um að ræða.