Fimm bílar sem ættu að vera til á Íslandi en eru það ekki

1849

Aton Impulse Viking 29031

Rússajeppar voru feykivinsælir á Íslandi á árum áður. Vinsælastir voru bílar frá GAZ og síðar tók Lada Niva, eða Sport eins og hún var kölluð hérlendis, við keflinu.

Rússneska fyrirtækið Aton Impulse framleiðir Viking bílinn en þar er á ferðinni gríðarlega megnugur jeppi.

Vélin er Ford DW10, 2.0 lítra diesel vél en hægt er að fá hana í annað hvort 136 hestafla eða 163 hestafla útgáfum. Togið er 320-340 Nm. Við vélina er sett annað hvort 6 þrepa Aisin AWF21 skipting eða 6 gíra beinskipting. Hámarks hraði er 80 km/klst en Viking bætir fyrir það á öðrum sviðum þar sem hann flýtur á vatni. Hægt er að fá bílinn með skrúfu að aftan sem gerir það að verkum að hægt er að sigla bílnum á allt að 12 km hraða.

Fríhæð frá jörð er stillanleg frá 300 mm – 600 mm og bíllinn vegur 1850-2100 kg.

Viking fæst annað hvort sem þriggja manna eða sjö manna en ökumaður situr í miðjum bílnum í báðum útfærslum bílsins sem væri flottur fyrir björgunarsveitirnar eða ferðaþjónustufyrirtæki.

Nissan GT-R

130090_1_5Að enginn af öllum þeim sem áttu Impreza WRX/STI eða Lancer Evo á árunum um og eftir aldamót skuli hafa vaxið úr grasi, eignast djúpa vasa og splæst í Nissan GT-R, eða Godzilla eins og hann er stundum kallaður, er óskiljanlegt. Ef einhver sportbíll á heima hérlendis er það Nissan GT-R.

Sparibíll bíður GT-R Premium á 29,5 milljónir og ódýrasta eintakið á mobile.de þegar þetta er skrifað kostar 37.000 evrur eða 5,2 milljónir sem að vísu enda í rúmum tólf þegar Bjarni Ben hefur lagt sitt á innflutninginn. Þrátt fyrir að vera háar fjárhæðir er þetta klink miðað við verð þeirra bíla sem GT-R stenst fyllilega snúning á akstursbrautum heimsins.

3.8 lítra VR38DETT V6 twin turbo vél GT-R er 480-550 hestöfl og togar 588-652 Nm eftir útgáfum. 0-100 km hraða nær bíllinn á 3,2 sekúndum og hámarkshraði er 314km/klst. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og búinn gríðarlega öflugum tölvubúnaði sem hámarkar afköst og aksturshæfni bílsins.

Lamborghini LM002

1280px-Lambo_LM_002_1

Þrátt fyrir að nú til dags séu Lamborghini sportbílar almennt  fjórhjóladrifnir eiga þeir því miður trúlega lítið erindi á það sem við Íslendingar köllum götur okkar og vegi. Til þess eru þeir full lágir, hastir og verðmætir.

Lamborghini hefur hins vegar framleitt jeppa og ólíkt sportbílum sínum var það ekkert smá ferlíki en hann vóg 2,7 tonn. Framleiddur frá 1986-93 var LM002 með 5.2 lítra V12 vél sem afkastaði 444 hestöflum. LM002 náði 100 km hraða á 7,8 sekúndum og hámarkshraði var 209 km/klst.

Á árunum fyrir hrun var enginn maður með mönnum nema eiga Range Rover. Það að enginn þeirra hafi skorið sig úr og keypti eitthvað í líkingu við LM002 þykir mér torskilið enda LM002 ólíklegur til að falla í verði þar eð ekki ýkja margir voru smíðaðir.

Audi R8

Audi R8 e-tronTalandi um fyrirhrunsárin, Audi R8 hefur komið hingað til lands. Þegar Hekla opnaði nýjan sýningarsal Audi 2007 fluttu þeir inn R8 til að hafa inni á gólfi hjá sér við tilefnið. Bíllinn stoppaði þó stutt og fór aftur út skömmu seinna.

Audi R8 þykir einn hagnýtasti ofursportbíllinn sem völ er á þar sem hann er furðuhentugur til daglegra nota. Áreiðanleiki bílsins er einnig afragðs góður, í það minnsta miðað við ofursportbíl.

Bíllinn hefur í gegnum tíðina komið í fjölmörgum útgáfum og með nokkrar vélar. Nú býðst R8 með V8 og V10 vélar og báðar koma í nokkrum útgáfum.

Nissan Patrol Y62

patrolNissan Patrol hefur goðsagnakennda stöðu meðal íslenskra jeppakalla og kvenna. Allt fram að nýjustu kynslóð bílsins, Y62, seldist Patrol gríðarvel hérlendis enda dugandi jeppi.

Við vorum samt ansi sér á báti meðal evrópubúa þegar kom að ást okkar til Patrol en hann seldist ekki vel annars staðar í álfunni. Hann er hinsvegar gríðarlega vinsæll í Mið-Austurlöndum og Ástralíu. Því ákvaðu Nissan að Y62 yrði aðeins með bensínvél en arabarnir líta varla við diesel bílum enda bensínið nánst gefins þar um slóðir. Endalok Patrol í Evrópu voru þar með ráðin.

Y61 fæst enn í Ástralíu fyrir þá sem þar vilja kaupa nýjan Patrol með diesel vél og hérlendis fékkst hann mun lengur en á flestum öðrum mörkuðum.

VK56VD 5.6 lítra V8 vél Patrol Y62 er 398 hestöfl og togar 560 Nm gegnum sjö þrepa sjálfskiptingu.