Fimm áhugaverðir bílar af bílasölur.is

2429

1988 Toyota Corolla GTI

E90 boddý Corolla var framleitt 1987-92 fyrir evrópumarkað en til 2006 í Suður-Afríku enda sérstaklega dugandi og áreiðanlegur fólksbíll.

GTI útgáfa bílsins fékkst bæði í þriggja dyra og fimm dyra útgáfum seldust báðir vel hérlendis. 1.6 lítra vél bílanna hét 4A-GE og var 121 hestafl og bíllinn sjálfur aðeins rétt rúmt tonn að þyngd.

Þetta eintak er fimm dyra útgáfan, uppgert og lítur gríðarlega vel út, í það minnsta á myndum. Annar bíll í varahluti fylgir með í kaupunum. Það er ekki ástæða til að setja það fyrir sig þó bíllinn sé ekinn 244.000 km því 4A-GE vélarnar eru aldræmdar fyrir langlífi.


 

2014 Toyota GT86

Drift nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi og GT86 er einn örfárra bíla sem fluttir hafa verið inn nýir undanfarin ár sem koma sem sniðnir í sportið frá verksmiðju.

Vélin er fjögurra strokka boxer, 200 hestöfl og togar 205 Nm. Bíllinn sjálfur er svo ekki nema 1.190-1.298 kg að þyngd eftir útfærslum. Það er gríðarlegt magn aukahluta fáanlegt í þessa bíla til að gera góðan bíl enn betri.

Hér má sjá breyttan turbo GT86 drifta í höndum atvinnumanns.


 

1966 Volvo Amazon

Volvo Amazon var framleiddur frá 1956-70. Amazon var framleiddur í fjögurra og tveggja dyra útgáfum auk þess sem hann fékkst sem skutbíll. Bílinn sem hér er til sölu er einn 234.653 fernra dyra sem voru framleiddir. Amazon varð 1959 fyrsti bíllinn sem hafði sætisbelti sem staðalbúnað.

Samkvæmt sölulýsingu er bíllinn aðeins ekinn 207 kílómetra eftir að hafa verið tekinn allur í gegn, vél þar með talin. Það er þó vert að taka eftir því að upphaflega skráningin á auglýsingunni er frá 2012 en síðast uppfærð í janúar síðastliðnum.


 

2004 Jaguar X-Type station

Það getur verið erfiður biti að kyngja fyrir bílaáhugamenn að þurfa að eignast hagnýtan bíl fyrir hversdagsleikann, t.d. þegar fólk eignast barn. Það er fátt um fína drætti ef maður vill bíl sem getur gleypt barnavagninn og er jafnframt skemmtilegur akstursbíll.

Jaguar X-Type var í framleiðslu milli 2001-09 og fékkst annað hvort framdrifinn eða fjórhjóladrifinn. Skutbíllisútgáfan bættist svo við 2004 og varð fyrsti skutbíll Jaguar og einnig fyrsta Jaguar módelið hannað af Ian Callum en áður hafði hann hannað t.d. Ford RS200 og Aston Martin Vanquish. Callum er í dag yfirmaður hönnunarmála hjá Jaguar.

Bíllinn sem hér er auglýstur til sölu er aðeins ekinn 60.000 km og er fjórhjóladrifinn með 3.0 lítra, 232 hestafla V6 vélinni en það var stærsta og kraftmesta vélin sem í boði var í þessum bílum.


 

2012 Alfa Romeo Giulietta

Núverandi Giulietta kom á markað 2010 og var í öðru sæti í vali á Evrópubíl ársins 2011. Giulietta er í sama stærðarflokki og Golf og Auris en ólíkt þeim er aðeins ein Giulietta til hérlendis, allavega sem höfundi er kunnugt um.

Þetta eintak er með 170 hestafla 1.4 lítra MultiAir vél sem kemur bílnum í 100 km hraða á 7,8 sekúndum. Vélin vann „Besta nýja vél ársins“ verðlaunin 2010. Eintakið er einnig með tvískipt glerþak og navigation kerfi.

Líkt og allar Giulietta er bíllinn með svokallaðan „DNA“ takka Alfa Romeo en með honum má stilla aksturseiginleika bílsins. D stendur fyrir „Dynamic“ og þannig eru bæði bensíngjöfin og stýrisviðbragð skarpari. N er „Neutral“ og A stendur fyrir „All weather“ en það tónar bílinn aðeins niður til að gera hann viðráðanlegri í rigningu og snjó.


 

Höfundi er ekki kunnugt um tengsl milli sín og eigenda þeirra bíla sem hér eru taldir upp. Ekki var greitt sérstaklega fyrir birtingu neinnar af þessum skráningum og upplýsingar sem í þeim koma fram eru á ábyrgð þeirra sem þær skráðu.