Er Skoda að undirbúa endurkomu til Bandaríkjanna?

57

Skoda hefur skráð nöfn nokkurra bíla sinna hjá bandarísku einkaleyfastofunni sem bendir til þess að tékkneski bílaframleiðandinn ætli að spreyta sig aftur á Bandaríkjamarkaði.

Það er rúm hálf öld síðan Skoda seldi bíl síðast vestanhafs en samkvæmt AutoGuide hefur Skoda skráð Yeti, Octavia og Superb sem vörumerki sín hjá bandarísku einkaleyfastofunni. Þó er auðvitað möguleiki að framleiðandinn skrái nöfnin aðeins til að verja þau notkun annars fyrirtækis þarlendis.

Núverandi Yeti kom á markað 2009 og á því stutt eftir en búist er við annarri kynslóð annað hvort 2017 eða 2018. Octavian er hins vegar nýleg og gæti höfðað til bandarískra kaupenda sem vilja rúmgóðan en ódýran bíl auk þess sem Superb ætti að geta strítt bílum bandarískra framleiðenda.

Skoda virðist ekki hafa skráð nafn Kodiaq sportjeppa síns en búist er við að hann verði frumsýndur á bílasýningunni í París í haust. Hann ætti þó að geta verið ás í ermi Skoda þar sem Kaninn er afar hrifinn af slíkum bílum.

DEILA Á