Ekki reyna að stinga þýsku lögguna af

859

„Polizei, gutes Auto“ eru orð sem þeir sem ætla sér að reyna að stinga þýsku lögregluna af ættu að hafa í huga áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Því fékk ungur maður á mótorhjóli að kynnast á dögunum en hann gerði tilraun til að stinga þýsku lögregluna í Bæjaralandi af þegar þeir vildu ná tali af honum. Meðal annars fór hann vitlaust í gegnum hringtorg en þegar maður á kraftlausu mótorhjóli ætlar gegn BMW F25 X3 í lögregluútgáfu má geta sér til um málalyktir.

Eftir að hafa reynt sprett í burtu en ekkert gengið með BMW-inn sér við hlið nær allan tímann gafst maðurinn upp og stoppaði fyrir lagana vörðum. „Ég gefst upp. Fyrirgefið,“ sagði ungi maðurinn þar sem lögregluþjónarnir stigu út úr bíl sínum, annar þeirra sultuslakur með ís í brauði. „Þú þarft betra mótorhjól ef þú ætlar að stinga af,“ sagði þá lögregluþjónninn sem hafði ekið en þeir vildu ræða númeraplötu hjólsins, eða raunar skort á henni við manninn unga.

Sá kom alveg af fjöllum og var steinhissa á að hún væri farin. Hann var þá beðinn um að taka af sér hjálminn og slökkva á myndavélinni sem hann sagðist myndu gera. Áður en hann náði að slökkva lét annar lögregluþjónanna þessi fleygu orð falla: „Polizei, gutes Auto“ eða „Lögregla, góður bíll,“ og bætti svo við: „þetta er drasl, þú ættir að kaupa betra hjól,“ til að fullkomna niðurlægingu grey unga mannsins sem vonandi lærir af reynslunni.