Dramatískur lokahringur 24h Nürburgring

78

24h Nürburgring keppnin fór fram um helgina og það var Maro Engel á #4 Mercedes-AMG GT3 keppnisbíl Black Falcon liðsins sem fór með sigur af hólmi eftir harða baráttu á lokahringnum.

Keppni var frestað á fyrsta klukkutímanum vegna gríðarlegrar úrkomu sem varð til þess að þónokkrir bílar hringsnerust út úr brautinni. Tveimur tímum síðar var rigningin hætt og keppni hófst á ný fyrir aftan öryggisbíl.

Christian Hohenadel á #29 Mercedes-AMG GT3 keppnisbíl HTP Motorsport liðsins leiddi keppnina á lokastigum en Maro Engel var fast á hæla honum. Á lokahringnum reyndi Engel svo framúrakstur þegar Hohenadel skildi dyrnar eftir opnar í áttundu beygju og komst með harðfylgi fram úr Hohenandel sem fór út úr braut við atganginn.

Hohenadel náði Engel ekki aftur en þeir fóru yfir endamarkið með aðeins 5,7 sekúndna millibili eftir sólarhringskeppni. HTP Motorsport mótmælti lögmæti framúrakstursins en kvörtuninni var vísað frá.

Black Falcon #4 var ekið af Bernd Shneider, Adam Christodoulou, Manuel Metzger og Maro Engel. Mercedes dómineraði 24h Nürburgring í ár en fjórir efstu bílarnir voru AMG GT3.