Bréfið sem batt enda á Rally Portúgal 1986

1728

Kappakstur er hættulegur sama hvaða öryggisráðstafanir eru gerðar. En Group B rallýið var algjörlega í eigin deild þegar kom að áhættu og það átti við um bæði keppendur og áhorfendur. Síðustu ár Group B voru bílarnir orðinir svo þróaðir og öflugir að mörgum stóð ekki á sama og töldu þá hreinlega stórhættulega.

Eftir tvö alvarleg slys 1985, annars vegar slys sem Attilio Bettega lét lífið í eftir að hafa ekið á tré og hins vegar slys Ari Vatanen þar sem hann var fluttur á sjúkrahús í lífshættu eftir að bíll hans endastakkst yfir sig á 200 km hraða, vöknuðu spurningar um hve öruggt Group B rallýið væri í raun og veru.

Ford RS200 bíll Joaquim Santos eftir að hafa ekið inn í áhorfendaþvöguna.
Ford RS200 bíll Joaquim Santos eftir að hafa ekið inn í áhorfendaþvöguna.

Í þriðja rallýi ársins 1986, Rally Portúgal, gerðist skelfilegt atvik. Joaquim Santos, ökumaður Ford, missti stjórn á RS200 bíl sínum eftir að hafa þurft að sveigja frá áhorfendum sem voru á veginum og hafnaði utan vegar og ók í áhorfendaþvöguna með þeim afleiðingum að þrír áhorfendur létu lífið og rúmlega 30 slösuðust. Öll lið bílframleiðenda drógu sig úr keppninni eftir að ökumenn liðanna rituðu bréf, dagsett 5. mars 1986, þess efnis að þeir vildu ekki ljúka við keppnina:

Ástæður þess að undirritaðir ökumenn vilja ekki halda keppni í Rallý Portúgal áfram eru eftirfarandi:

  1. Sem virðingarvott gagnvart fjölskyldum hinna látnu og fyrir þeim slösuðu.
  2. Það er mjög sérstakt ástand hér í Portúgal: okkur finnst ómögulegt að tryggja öryggi áhorfenda.
  3. Slysið á 1. hluta varð vegna þess að ökumaðurinn þurfti að forðast áhorfendur sem voru á veginum. Það var ekki orsakað vegna gerðar bílsins eða hraða hans.
  4. Við vonum að íþrótt okkar njóti á endanum góðs af ákvörðun okkar.
Á myndinni sést hvar Toivonen og aðstoðarökumaður hans, Cresto, höfnuðu utan vegar í Rally Frakkland.
Á myndinni sést hvar Toivonen og aðstoðarökumaður hans, Cresto, höfnuðu utan vegar í Rally Frakkland.

Líkt og 1985 var Rally Frakkland fimmta mót keppnisdagatalsins 1986 og að venju fór það fram á Korsíku. Og aftur varð alvarlegt slys í Rally Frakklandi. Að þessu sinni var það ökumaður Lancia, Henri Toivonen, sem átti hlut að máli. Á afviknum stað brautarinnar missti Toivonen stjórn á bíl sínum svo hann fór út af veginum og flaug fram af syllu og lenti á þakinu. Við lendinguna rifnaði álbensíntankur undir sæti Toivonen og út braust mikið eldbál. Hvorki Toivonen né aðstoðarökumaður hans, Sergio Cresto, komust lífs af úr slysinu en þeir brunnu báðir til bana, fastir í sætum sínum.

Þetta slys fyllti mælinn. Alþjóða aksturssambandið, FIA, gaf það út í kjölfar Rally Frakkland, sem Frakkinn Bruno Saby á Peugeot sigraði, að keppni í Group B færi ekki fram 1987 og að frekari þróun bílanna skyldi hætt. Audi og Ford drógu sig strax úr keppni í Group B en önnur lið héldu áfram út keppnistímabilið.

Þeim sem fannst þessi grein áhugaverð er bent á að lesa einnig Klifurdans Ari Vatanen.

DEILA Á