Brawn GP

347
Jenson Button í Tyrklandskappakstrinum 2009.

Tyrrell Racing Organisation hét lið í eigu Ken Tyrrell sem keppti í Formúlu eitt í þrjátíu ár frá 1968-98. Liðið naut velgengni snemma og vann heimsmeistaratitil bílsmiða 1971 og Jackie Stewart vann heimsmeistaratitil ökumanna með Tyrrell Racing 1969, ’71 og ’73. Liðið náði aldrei að leika þennan árangur eftir þar sem liðið var oftar en ekki rekið á horriminni og tilkoma túrbínuvéla á níunda áratugnum batt enda á vonir liðsins um árangur en Tyrrell Racing var til að mynda síðasta liðið til að setja túrbínuvélar í bíla sína en túrbóvélarnar voru dýrar í smíðum og ekki síst viðhaldi. Eftir mörg mögur ár ákvað Ken Tyrrell, þá að verða heilsuveill, að láta gott heita árið 1998 og selja liðið.

BAR 002. Á þessum bíl náði BAR liðið í sín fyrstu stig árið 2000.
BAR 002. Á þessum bíl náði BAR liðið í sín fyrstu stig árið 2000.

British American Tobacco fyrirtækið sá sér hag í að eiga og reka Formúlu 1 lið til að auglýsa vörur sínar, einkum sígarettutegundirnar Lucky Strike og 555. Fyrirtækið keypti Tyrrell Racing og breytti nafninu í British American Racing (BAR). BAR liðið tók þátt í F1 árin 1999-2005 við þokkalegan orðstýr utan síns fyrsta keppnistímabils en á því náði liðið ekki í eitt einasta stig. Fyrsta ár BAR í F1 notaðist liðið við Supertec vélar en skipti svo yfir í Honda vélar. Á meðal ökumanna sem kepptu fyrir BAR voru Jacques Villeneuve, Mika Salo og Jenson Button. Með hertum reglum um tóbaksauglýsingar sá fyrirtækið sér æ minnkandi hag í eign sinni á liðinu og svo fór að vélaframleiðandi liðsins frá árinu 2001, Honda, keypti 45% hlut í liðinu í nóvember 2004 og þau 55% sem eftir voru í september 2005.

Rubens Barrichello um borð í Honda Racing F1 RA-106 bíl sínum í Brasilíukappakstrinum 2006.
Rubens Barrichello um borð í Honda Racing F1 RA-106 bíl sínum í Brasilíukappakstrinum 2006.

Liðið var endurnefnt Honda Racing F1 fyrir 2006 keppnistímabilið en British American Tobacco var aðalstyrktaraðili út það tímabil en lét svo gott heita. Forstjóri BAR liðsins, Nick Fry, fylgdi liðinu áfram sem og ökumaðurinn Jenson Button. Rubens Barrichello var ráðinn til liðsins sem ökumaður og væntingar til liðsins voru miklar enda RA106 vél Honda álitin ein aflmesta vél keppninnar. Fyrir utan einstaka árangur, til dæmis á Hungaroring í Ungverjalandi þar sem Barrichello og Button náðu þriðja og fjórða sæti á ráslínu og Button náði sigri eftir að hafa fengið tíu sæta víti og ræst fjórtándi, var tímabilið vonbrigði fyrir Honda Racing. Fyrir 2008 keppnistímabilið kom fyrrum liðsstjóri Ferrari, Ross Brawn, í raðir Honda Racing sem liðsstjóri en það breytti ekki miklu, 2008 var ekkert sérstakt ár fyrir liðið. Þegar kreppan svo skall á síðar það ár vildi Honda ekki kosta liðið um þær 300 milljónir dollara sem það þurfti til að reka sig. Liðið var því til sölu. Mögulegir kaupendur voru meðal annarra taldir vera forstjóri Prodrive, David Richards og samsteypa Richard Branson, Virgin Group. Á endanum voru það þó þeir Ross Brawn og Nick Fry sem keyptu liðið.

470px-Brawn_GP_logo.svgLiðið skipti um nafn og og var skráð til leiks fyrir 2009 keppnistímabilið í Formúlu 1 sem Brawn GP eftir liðsstjóra sínum og aðaleiganda. Þrátt fyrir að vera í raun sama lið og áður þó nafn og eignarhald væri breytt taldist það nýtt samkvæmt reglum Formúlu 1. Bernie Ecclestone, framkvæmdastjóri F1, gaf út að ástæðan væri sú að tengsl Honda og liðsins hafi verið rofin og að lið Honda hafi í raun horfið á braut með framleiðandanum. Í ljósi aðstæðna var Brawn GP þó gefið eftir að greiða skráningargjald nýrra liða. En þar sem Honda hafði ekki einungis dregið sig úr Formúlu 1 sem keppnislið heldur einnig sem vélaframleiðandi þurfti Brawn GP að róa á ný mið eftir vél. Liðinu stóðu þónokkrar vélar til boða en völdu Mercedes-Benz vél þar sem hún hentaði bílnum best. Brawn GP naut í raun góðs af döpru gengi Honda Racing árið áður þar sem sú ákvörðun hafði verið tekin um mitt keppnistímabilið 2008 að hætta frekari þróun ’08 bílsins, RA-108, og hefja þróunarvinnu RA-109 fyrir næsta tímabil. Sú vinna var því komin vel á veg þegar eigendaskiptin áttu sér stað.

Jenson Button í Tyrklandskappakstrinum 2009.
Jenson Button í Tyrklandskappakstrinum 2009.

Fyrsti kappakstur Brawn GP var Ástralíukappaksturinn. Fyrir kappaksturinn sendu þónokkur lið athugasemdir til mótstjórnar vegna aftari loftdreifara (e. diffuser) BGP 001 bíl liðsins sem liðin vildu meina að stæðust ekki reglur. Bílar Williams og Toyota sættu sömu ásökunum. Mótstjórn vísaði athugasemdunum á bug og sagði loftdreifarana löglega. Jenson Button tók ráspól í tímatökum og Rubens Barrichello varð annar á ráslínu með Sebastian Vettel á Red Bull í þriðja. Button missti fyrsta sætið aldrei á meðan á kappakstrinum stóð og Barrichello hélt öðru sæti. Liðið varð hið fyrsta til að sigra tvöfalt í sínu fyrsta móti síðan 1954 er Mercedes liðið náði þeim árangri. Eftir mótið hélt loftdreifaramálið áfram en nú höfðu liðin sem gert höfðu athugasemdir kært málið til FIA en niðurstaðan varð sú sama, loftdreifarar liðanna voru löglegir.

Jenson Button á ráspól í Spánarkappakstrinum 2009.
Jenson Button á ráspól í Spánarkappakstrinum 2009.

Næsta mót Brawn GP var Malasíukappaksturinn og þar var svipað uppi á teningunum en Button náði ráspól og var í fyrsta sæti þegar keppni var hætt eftir 31 hring af 56 vegna úrhellisrigningar. Nick Heidfeld á BMW Sauber og Timo Glock á Toyota voru í öðru og þriðja sæti. Barrichello endaði í fjórða sæti og liðið vann því keppni bílsmiða í mótinu en þetta var í fyrsta sinn frá 1950, er Alfa Romeo vann keppni bílsmiða í fyrstu tveim mótunum sem haldin voru sem teljast til nútíma F1, sem nýtt lið sigrar keppni bílsmiða í sínum tveim fyrstu mótum. Þriðja keppni ársins var Kínakappaksturinn. Þar gekk ekki eins vel og í fyrstu tveimur mótunum en árangurinn þó ásættanleg þriðju og fjórðu sæti ökumanna með Button á undan.

Rubens Barrichello í Mónakókappakstrinum 2009.
Rubens Barrichello í Mónakókappakstrinum 2009.

Liðið sigraði næstu þrjú mót og þar af með tvöfaldan sigur í Spánar- og Mónakókappökstrunum. Eftir frábæra byrjun í fyrstu fimm mótum ársins hægðist aðeins á Brawn liðinu og ökumenn liðsins komust aðeins einu sinni á verðlaunapall í næstu þrem mótum þegar Button hafnaði í þriðja sæti í Bretlandskappakstrinum á Silverstone. Í Ungverjalandskappakstrinum átti liðið svo afleita tímatöku þegar Button náði áttunda sæti og Barrichello aðeins þrettánda eftir að afturfjöðrun gaf sig með þeim afleiðingum að gormur út bíl Barrichello hafnaði í höfuði Felipe Massa. Massa rotaðist við höggið og keyrði rakleitt út úr brautinni og hafnaði á vegg. Meiðsli Massa voru alvarleg og hann var til að byrja með talinn í lífshættu. Hann braggaðist þó hratt en tók ekki frekari þátt í keppnistímabilinu. Það var svo í næsta móti ársins, Evrópukappakstrinum, sem að þessu sinni fór fram á götum Valencia borgar á Spáni, að Barrichello vann sinn fyrsta sigur fyrir Brawn GP og sinn fyrsta sigur í fimm ár. Á Imola brautinni á Ítalíu, í þrettánda móti tímabilsins, vann Brawn liðið sinn síðasta tvöfalda sigur með Barrichello í fyrsta sæti og Button í öðru.

Fyrir síðasta mót ársins, Brasilíukappaksturinn á Interlagos brautinni, þurfti liðið aðeins hálft stig til að tryggja sér heimsmeistaratitil bílsmiða. Button var í forystu í keppni ökumanna fyrir mótið og tryggði sér heimsmeistaratitilinn með því að enda Brasilíukappaksturinn í fimmta sæti, ellefu stigum á undan Sebastien Vettel sem endaði í öðru sæti. Barrichello hafnaði í áttunda sæti keppninnar en því þriðja í stigakeppni ökumanna. Stigið hálfa sem upp á vantaði í keppni bílsmiða skilaði sér og gott betur í Brasilíu svo Brawn GP vann heimsmeistaratitil bílsmiða.

Mögnuð byrjun og algjörir yfirburðir Brawn GP fyrsta hluta 2009 keppnistímabilsins þar sem liðið vann sex af fyrstu sjö mótunum höfðu dugað liðinu til. Þrátt fyir að önnur lið færðust nær BGP 001 bílnum í getu eftir því sem á leið tímabilinu varð þeim ekki náð. Button notaði einn og sama undivagninn allt tímabilið sem gerir undirvagn BGP001-02 einn þann notadrýgsta í sögu F1.  Button fékk bílinn til eignar vegna klásúlu í samningi sínum sem kvað á um að hann skyldi eignast keppnisbíl sinn yrði hann heimsmeistari.

Ross Brawn 2009.
Ross Brawn 2009.

Brawn GP var keypt af Mercedes Benz eftir 2009 keppnistímabilið. Mercedes hafði viljað auka veg sinni í F1 og eiga og reka eigið lið undir eigin merki en frá 1994 höfðu afskipti þeirra af Formúlu 1 einskorðast við vélaframleiðslu. Daimler AG, móðurfyrirtæki Mercedes Benz, keypti 45,1% í liðinu en meðfjárfestirinn Aabar Investments 30%. Ross Brawn og Nick Fry áttu þau 24,9% sem út af stóðu. Nafni liðsins var breytt í Mercedes Benz AMG Petronas Formula One Team og ökumönnunum Button og Barrichello var skipt út fyrir Nico Rosberg og Michael Schumacher; þýskur bílframleiðandi með þýskum ökumönnum skyldi liðsskipanin vera. Ross Brawn var þó áfram liðsstjóri og hélt þeirri stöðu þar til eftir 2013 tímabilið að hann sagði skilið við Mercedes GP vegna ósættis um hlutverk sitt hjá liðinu.

  1. febrúar 2014 tilkynnti Ross Brawn að hann væri hættur í Formúlu 1.
DEILA Á