BMW: fyrsta öldin

444

Það var á þessum degi, 7. mars, árið 1916 sem Bayerische Motoren Werke AG var stofnað í München í Bayern héraði í Þýskalandi.

Saga BMW hófst árið 1913. Karl Friedrich Rapp stofnaði í október það ár Rapp-Motorenwerke í verksmiðjuhúsnæði nærri München sem áður hafði hýst reiðhjólaverksmiðju. Rapp var verkfræðingur sem hafði áður unnið hjá Daimler. Rapp-Moterenwerke var sett á laggirnar sem dótturfyrir tæki flugvélaframleiðandans Flugwerk. Rapp hóf framleiðslu flugvélamótora en þeir þóttu víbra of mikið.

Portrait_of_Karl_Rapp_1911
Karl Friedrich Rapp árið 1911.

Nærri verksmiðju Rapp hafði Gustav Otto, sonur Nikolaus Otto sem fann upp fjórgengisvélina, hafið framleiðslu smárra flugvéla og notið talsverðrar velgengni.

Árið 1916 hafði fyrirtæki Rapp náð samningum við Prússland og Austurríki-Ungverjaland um framleiðslu 25 stórra V12 flugvélamótora. Rapp Motorenwerke átti í basli með áreiðanleika véla sinna og hóf að kaupa fjögurra strokka vatnskælda flugvélamótora frá Otto. Rapp Motorenwerke sameinaðist Gustav Flugmaschinefabrik í framhaldinu og úr varð Bayerische Flugzeug-Werke, BFW.

Austurríski verkfræðingurinn Franz-Josef Popp sá um viðskiptahlið fyrirtækisins. Hann tryggði BFW marga mikilvæga samninga um hergagnaframleiðslu. Þegar hér var komið við sögu var BFW með puttana í fleiru en framleiðslu flugvélamótora svo Popp breytti nafninu í Bayerische Motoren Werke GmbH. BMW lítur á stofndag sinn sem 7. mars 1916.

Skömmu eftir samrunann áttaði Popp sig á því að fyrirtækið þandist of hratt og að það myndi þurfa aukið fjármagn til að standa undir stækkun sinni. Hann sneri sér að Camillo Castiglioni, fjármögnunaraðila frá Vínarborg og yfirmanns Wiener Bankverein bankans. Popp og Castiglioni endurfjármögnuðu fyrirtækið og neyddu Rapp út úr því og gerðu honum að yfirgefa það áður en árið væri úti.

Franz-Josef Popp.
Franz-Josef Popp.

1917 fór fyrsti flugvélamótorinn með nafnið BMW, Type IIIa, í framleiðslu. Þetta var vatnskæld línu sexa sem var búin blöndungi sem mikil flughæð hafði ekki áhrif á. Vélin gat því skilað fullu afli sama hver flughæðin var. Yfirvélaverkfræðingur BMW, Max Friz, þróaði blöndunginn. Friz var mikill verkfræðihugur sem átti eftir að ráða yfir þróunarvinnu BMW fram á sjöunda áratuginn.

Popp tókst að sannfæra þýsku ríkisstjórnina um að kaupa IIIa vélina.

1918 knúði vélin tvíþekju í 5.000 metra flughæð á aðeins 29 mínútum. Þetta þótti mikið afrek og kom BMW vel á kortið sem vélaframleiðanda sem aftur varð til að auka eftirspurn eftir vélum fyrirtækisins.

Sama ár var nafni fyrirtækisins breytt í BMW AG.

Millistríðsárin

Versalasamningarnir sem voru undirritaðir 1919 eftir lok fyrri heimsstyrjaldar meinuðu þýska hernum að framleiða eða láta framleiða flugvélamótora fyrir sig. BMW sneri sér því að báta- og trukkavélum auk landbúnaðartækja. Þeir félagar Popp og Friz héldu þó áfram þróun flugvélamótora á laun og innan skamms voru þeir klárir með arftaka IIIa vélarinnar, Type IV. Með þeirri vél setti Franz Zeno Diemer flughæðarmet, 9.760 m eða 32.013 fet.

1280px-BMW_IVa_r2_TCE
Þessi Type IV vél kom Franz Zeno Diemer upp í 32.013 fet.

Flughæðarmetið hafði ekki sömu áhrif og í fyrra skiptið. Viðskiptaumhverfið eftir fyrri heimstyrjöld var afar erfitt. Castiglioni seldi hlut sinn í fyrirtækinu fyrir 28 milljónir ríkismarka. Kaupandinn var framkvæmdastjóri Knorr Bremsen AG en það fyrirtæki framleiddi bremsukerfi í lestar og atvinnutæki.

Með aðeins öfráar pantanir fyrir flugvélamótorum barðist BMW í bökkum og hóf framleiðslu bremsukerfa í lestar, skrifstofuhúsgögna og vinnubekkja auk smækkaðra flugvélamótora til notkunar í báta og við iðnað.

1920 birtist núverandi merki BMW í fyrsta sinn.

Sama ár framleiddi BMW sína fyrstu mótorhjólavél, M2B15. Vélin var hönnuð af Martin Stolle og Max Friz í Victoria KR1 mótorhjólið sem framleitt var af Victoria-Werke í Nürnberg og var 494 cm3, loftkæld og 6,5 hestöfl. Vélin var framleidd frá 1920-’22.

Ári síðar lítur fyrsta vélhjól BMW dagsins ljós en það var kallað Fink (ísl. Finka) og var knúið af Kurier tvígengisvél.

1922 byggði BMW sína fyrstu verksmiðju við Neulerchenfeldstrasse á sama stað og flugvélaverksmiðja Otto, Gustav Flugmaschinefabrik, hafði staðið. Enn síðar var Ólympíuleikvangurinn í München reistur þarna nærri.

BMW R32.
BMW R32.

Finkan gekk ekkert sérstaklega vel í sölu en það orð fór af henni að fjöðrunarkerfið væri gallagripur. Vinna hófst við hönnun R32 mótorhjólsins og þegar það var frumsýnt á bílasýningunni í Berlín 1923 vakti það mikla hrifningu. Loftkæld tveggja strokka, 494 cm3, 8,5 hestafla M2B33 boxervél R32 kom hjólinu upp í 95 km hraða. Fram til 1926 seldi BMW um 3.100 eintök. R32 var því fyrsta almenningsfarartæki BMW sem seldist í umtalsverðum eintakafjölda.

1925 kynnti BMW R37 mótorhjólið til sögunnar. Aflið var tvöfalt á við R32 eða 16 hestöfl úr 500 cmvél hjólsins. R37 gerði BMW að þekktum framleiðanda í mótorhjólaheiminum og á því hjóli byggðu keppnishjól BMW á þriðja áratugnum. Frá 1924-’29 unnust allar þýskar mótorhjólakeppnir í 500 rúmsentimetra flokki á BMW.

BMW voru þó hvergi af baki dottnir þegar kom að flugvélum. Rohrbach Ro VII sjóflugvélin sem smíðuð var af Rohrbach Metall-Flugzeugbau var með tvær BMW IV vélar og setti fjögur hraðamet 1926.

BMW hélt áfram á sömu braut og 1927 komu BMW vélar við sögu í 29 af 87 heimsmetum sem sett höfðu verið í flugi.

Dixi 3/15.
Dixi 3/15.

1928 markar upphaf bílaframleiðslu BMW. Fyrirtækið keypti Fahrzeugfabrik Eisenach (FFE) bílaframleiðandann og verksmiðju hans í Eisenach í nóvember það ár. FFE framleiddi bíla undir nafninu Dixi og hafði leyfi til að framleiða bíl sem byggði á Austin 7 og hét Dixi 3/15. Austin tók gjald fyrir hvern framleiddan 3/15. Með í kaupum BMW á FFE fylgdi leyfið til að framleiða 3/15 bílinn. Fyrstu eintökin sem framleidd voru af BMW hétu BMW Dixi en Dixi nafninu var hent 1929 þegar uppfærð útgáfa bílsins kom fram. Eftir það hét bíllinn BMW 3/15 DA-2 en 3/15 stóð fyrir skattaflokk bílsins og hestöflin 15. DA stóð fyrir Deutsche Ausfuhrung eða þýsk útgáfa. Í þeirri útgáfu var bíllinn með stálboddí og bremsur á öllum hjólum. Bíllinn var alls framleiddur í 18.976 eintökum.

Enn bættist í metabanka BMW 1929 þegar Ernst Henne setti hraðamet á 750 cmhjóli BMW 19. september. Hann náði 216,75 km hraða og bætti fyrra met up 10 km/klst.

BMW 3/20.
BMW 3/20.

Fyrsta módel BMW sem var hannað algerlega innanbúðar kom fram á sjónarsviðið 1932 og hét 3/20PS. Vélin var 782 cm3 og skilaði 20 hestöflum við 3.500 snún./mín. en þau dugðu bílnum til að ná 80 km hraða.

Árið eftir kynnti BMW 303 til sögunnar en hann var fyrsti bíll framleiðandans til að hafa línu sexu í húddinu. Vélin var 1173 cm3 og 30 hestöfl, hönnuð af Fritz Fiedler og hafði keðjudrifinn kambás og undirlyftustangir og rockerarma á lóðréttum ventlum. Sveifarásinn var hannaður af Rudolph Schleicher. Hámarkshraði var 90 km/klst. 303 var fyrsti BMW-inn til að skarta tveggja nýrna grilli.

BMW 315/1 roadster kom fram árið 1934. Hann þótti einstaklega fallegur og þótti hafa mýkri línur annað sem þekktist á þeim tíma með lága hurðalínu. Vélin var 1.5 lítra 6 strokka lína sem skilaði 40 hestöflum. Hámarkshraði var 125 km/klst sem gerði 315/1 að einum samkeppnishæfasta sportbíl þess tíma.

BMW 328 roadster.
BMW 328 roadster.

1936 kynnir BMW 328 roadster. Bíllinn varð goðsögn í kappaksturssögunni og þykir einn af bæði bestu og fallegustu bílum sem BMW hefur smíðað, hannaður af Peter Schimanowski. Vélin var 2.0 lítra línu sexa sem skilaði 80 hestöflum. Bíllinn var tilnefndur sem bíll aldarinnar. Á honum var fyst keppt á Nürburgring í júní 1936 en enginn átti roð í hann í tveggja lítra flokki í alþjóðlegum keppnum og árið 1937 sigraði hann rúmar 100 keppnir. Línur bílsins, ekki síst innfelld framljósin, settu af stað trend í bílahönnun sem lifði fram á sjötta áratuginn.

Seinni heimsstyrjöld

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út tók nasistastjórn Þýskalands yfir stjórn allra framleiðslufyrirtækja landsins og þar með talið BMW. Fyrirtækinu var gert að einbeita sér að framleiðslu flugvélamótora og 1939 keypti BMW Brandenburgische Motorenwerke, Bramo, og sameinaði það við flugvélamótoradeild sína. Fyrirtækið fékk nafnið Flugmotorenbau GmbH.

Popp var mikið á móti þessu fyrirkomulagi því að þó það væri fjárhagslega arðbært að framleiða flugvélamótora fyrir stríðsrekstur nasista gerði þetta BMW of háð dutlungum ríkisstjórnarinnar. Hann virtist þó ekki sjá það fyrir að nasistastjórnin tæki yfir BMW með auknum afskiptum sínum en það var það sem gerðist og stjórn fyrirtækisins og Popp sjálfur misstu æ meiri tök á rekstri fyrirtækisins og urðu í raun algerlega valdalaus en fram að því hafði Popp verið nærri einráður i fyrirtækinu.

BMW R75 í Sahara útfærslu framleitt fyrir þýska fótgönguliðið.
BMW R75 í Sahara útfærslu framleitt fyrir þýska fótgönguliðið.

Áherlsan á framleiðslu flugvélamótora breytti rekstri BMW. Mótorhjólaframleiðslan í München hætti framleiðslu allra hjóla nema tveggja, R12 og R75, en þau voru þó aðeins framleidd fyrir fótgönguliðið, Wermacht. 1942 var framleiðslan svo færð í Eisenach verksmiðjuna því flugvélamótoraframleiðslan var orðið svo umfangsmikil að hún þurfti alla verksmiðjuna í München. Síðar það ár hætti BMW framleiðslu mótorhjóla en 1940 hafði fyrirtækið lagt bílaframleiðslu sinni. Þróunardeild bílaframleiðslunnar hélt þó áfram störfum á meðan á stríðinu stóð.

Mikið úrval flugvélamótora var framleitt fyrir flugherinn, Luftwaffe, í verksmiðjum BMW í stríðinu, þeirra á meðal öflugasta vél þess tíma BMW 801. Rúmlega 30.000 mótorar voru framleiddir auk 500 þotumótora. Til að ráða við slíkt framleiðslumagn voru fangar úr fangabúðum nasista, þar á meðal úr Dachau, settir í nauðungavinnu í verksmiðjunum. Við stíðslok var nærri helmingur vinnuafls fangar úr fangabúðum en þá störfuðu 50.000 í verksmiðjum BMW.

Verksmiðjur BMW voru gerðar upptækar af bandamönnum í stríðslok og framleiðsla flugvélamótora og þotuhreyfla fyrir Luftwaffe stöðvuð.

Eftistríðsárin

Verksmiðjur BMW höfðu orðið fyrir tíðum loftárásum í stríðinu svo ekki var mikið eftir af verksmiðjum á vegum fyrirtækisins. Raunar var verksmiðjan í München rústir einar. Sovéski herinn náði svo þeim verksmiðjum sem höfðu verið austarlega í Þýskalandi.

Það tók BMW talsverðan tíma að komast á laggirnar aftur eftir stríð. Bandamenn bönnuðu fyrirtækinu að framleiða mótorhjól svo BMW framleiddi fyrst um sinn potta og pönnur úr brotajárni. Síðar færði fyrirtækið út kvíarnar og fór að framleiða fleiri eldhúsáhöld auk reiðhjóla. Bandaríkjastjórn veitti BMW svo leyfi fyrir framleiðslu mótorhjóla 1947 og framleiðsla R24 mótorhjólsins hófst 1948.

EMW 327. Takið eftir rauð hvíta merkinu fyrir ofan grillið.
EMW 327. Takið eftir rauð hvíta merkinu fyrir ofan grillið.

Í austri hafði Eisenach verksmiðja BMW verið færð Awtowelo fyrirtækinu af Sovéskum yfirvöldum. Þar hófst framleiðsla R35 mótorhjólsins strax 1945 og 321 bíllinn fylgdi fast á eftir, allt í óþökk BMW í vestri. Ögn breytt útgáfa 327 bílsins fór í framleiðslu 1948 og í kjölfarið 340 árið 1949. Öll farartækin voru seld sem BMW með merki framleiðandans á þeim. Til að freista þess að verja vörumerki sitt rauf BMW lagalega öll tengsl við Eisenbach verksmiðjuna. Awtowelo hélt framleiðslu 327 og 340 áfram undir vörumerkinu Eisenacher Motorenwerk (EMW) með rauða og hvíta útgáfu af merki BMW allt fram til 1955.

Í vestri hafði Bristol Aeroplane Company (BAC) skoðað verksmiðjur BMW og tekið teikningar fyrir 327 bílinn og sex strokka vélar hans með sér til Bretlands sem stríðsskaðabætur. BAC réði svo fyrrum verkfræðing BMW, Fritz Fiedler, til að stjórna vélahönnunardeild sinni. 1947 sendi BAC svo frá sér bíl sem hét 400 coupé en hann var lengd útgáfa af 327 og auk þess með tveggja nýrna grilli.

Að fóta sig í nýjum heimi

Í lok fimmta áratugarins hafði BMW aftur hafið framleiðslu mótorhjóla en var enn ekki byrjað að framleiða bíla á ný.

Alfred Böning, yfirverkfræðingur BMW, hafði þróað hugmynd að litlum, hagkvæmum bíl með 600 cmmótorhjólavél. Bílinn kallaði hann 331 en boddíið var hannað af Peter Schimanowski og minnti á smáa útgáfu af 327.

Ákvörðun um hvort bíllinn færi í framleiðslu var í höndum yfirstjórnar fyrirtækisins en sölustjórinn Hanns Grewenig, sem var fyrrum bankamaður og verksmiðjustjóri hjá Opel, beitti neitunarvaldi gegn 331. Hans sýn var að vegna takmarkaðrar framleiðslugetu BMW og sögu fyrirtækisins sem lúxusbílaframeiðanda skyldi BMW einbeita sér að framleiðslu bíla þar sem hagnaðarhlutfall væri hátt. Hann skipaði því Böning og liði hans að einbeita sér að hönnun slíks bíls.

1957 BMW 501.
1957 BMW 501.

Sú hönnun leit dagsins ljós 1951 og hét 501. Hann kostaði um 15.000 ríkismörk en það voru fjórföld árslaun meðal Þjóðverja. Hann var mun þyngri en vonir höfðu staðið til og úr sér gengin fyrir-stríðs 2.0 línu sexan var of kraftlaus fyrir svo stóran bíl. Tafir á afhendingu og uppsetningu véla til framleiðslu bílsins gerðu það að verkum að framleiðsla hans hófst ekki fyrr en síðla árs 1952.

1954 fékk 501 endurbætta og öflugri útgáfu af sex strokka vélinni og bílnum var skipt upp í tvö módel. 501A var samskonar og áður en kostaði nú 1.000 ríkismörkum minna. 501B var ekki eins vel búinn að kostaði 1.000 ríkismörkum minna en 501A. 502 var einnig kynntur til sögunnar en hann var í raun bara betur búinn 501A og með 2.6 lítra V8 vél sem hönnuð var af Böning og Fiedler. Þessi endurbætta lína tvöfaldaði sölu lúxusbíla BMW.

BMW Isetta 300.
BMW Isetta 300.

Helsta mjólkurkýr BMW voru þó enn mótorhjólin og sala þeirra toppaði 1954. Eftir það dróst sala saman þar sem Þjóðverjar sneru bökum við farartækjum á tveimur hjólum fyrir fjögur. Eberhard Wolff, yfirmaður bílahönnunar hjá BMW, sá Isetta bólubílinn á bílasýningunni í Genf 1954 og stakk upp á því við yfirmenn sína að BMW leitaðist við að fá að framleiða þá með leyfi Isetta. Það gekk eftir og BMW hóf framleiðslu bílsins undir nafninu BMW Isetta 300 árið 1955 en það ár seldust yfir 10.000 Isetta bílar. Í árslok 1958 hafði BMW framleitt rúmlega 100.000 slíka bíla og alls urðu þeir 161.728 þegar framleiðslu lauk 1962.

BMW gerðu sér grein fyrir að þeir þyrftu að framleiða fjögurra sæta fjölskyldubíl til að fylgja straumnum en efnahagur meðaljónsins í Þýskalandi hafði batnað stórum frá stríðslokum. Fyrirtækinu skorti þó fjármagn til að hanna nýjan bíl fyrir þennan markað. Þeir gripu þá til þess ráðs að hanna bíl sem byggði á Isetta bílnum, bara stærri. Við það varð BMW 600 til en hann var lengri en 300 bíllinn en notaðist við framfjöðrun, framsæti og framhurðina af 300 bílnum. Að aftan var 600 bíllinn hins vegar jafn breiður og að framan en ekki inndreginn eins og 300. Vélin var 600 cmmótorhjólavél og bíllinn var byggður á strigagrind. BMW 600 kom á markað 1957 en átti ekki roð í VW Bjölluna. Framleiðslu lauk 1959 með tæplega 35.000 eintök framleidd.

Fjárhagskröggur

1959 var BMW komið í skuldir og tapaði fé. Isetta seldist vel en hagnaðarhlutfall var lágt. 501 línan seldist ekki vel og var að auki orðin úreld. 503 coupé og 507 roadster voru of dýrir í framleiðslu til að vera arðbærir. 600 bíllinn seldist illa. Mótorhjólamarkaðurinn lagðist saman um miðjan áratuginn þegar þýskur almenningur fór að hafa efni á bílum.

Á aðalfundi fyrirtækisins 9. desember 1959 lagði Dr. Hans Feith, stjórnarfomaður yfirstjórnar BMW, það til að fyrirtækið myndi sameinast Daimler-Benz. Umboðsmenn og minni hluthafar voru á móti samrunanum og fylktu sér að baki móttillögu Dr. Friedrich Mather um að sameinast ekki. Það varð ofan á að sameinast ekki.

Viðsnúningurinn

BMW hafði nýlega hafið sölu 700 bíls síns en það var lítill bíll með loftkælda 697 cm boxervél fengna úr R67 mótorhjólinu og staðsett aftur í bílnum. 700 fékkst bæði sem 2 dyra stallbakur og sem coupe en báðar útgáfur voru hannaðar af Giovanni Michelotti. Þá fékkst einnig öflugri RS útgáfa ætluð til kappaksturs.

BMW 1500.
BMW 1500.

Á bílasýningunni í Frankfurt 1961 hleypti BMW 1500 bíl sínum af stokkunum. Þetta var smár stallbakur með diskabremsum að framan og sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum. Þessi þá framúrstefnulegi bíll festi orðspor BMW sem sportbílaframleiðanda enn frekar í sessi. 1500 var fyrsti bíll BMW til að skarta „Hofmeister kink“ línunni en hún hefur verið eitt aðalsmerkja í hönnun BMW allar götur síðan.

„New class“ kom fram 1966 sem endurbætt útgáfa 1500 og nú hétu módelin 1600 og 1800 en það voru 2 dyra bílar.

1963 var fyrirtækið komið aftur á lappir og greiddi út arð í fyrsta sinn síðan í seinni heimsstyjöld.

1966 vann verkmsmiðjan í München á hámarki framleiðslugetu. BMW hafði ætlað sér að byggja nýja verksmiðju en endaði á að kaupa Hans Glas GmbH bílaframleiðslufyrirtækið ásamt verksmiðjum þess í Dingolfing og Landshut. Báðar verksmiðjurnar voru endurskipulagðar og áratugina á eftir varð Dingolfing verksmiðjan sú stærsta í eigu BMW.

BMW hóf framleiðslu „New six“ línu sinnar 1968. Línan samanstóð af stórum lúxus og GT coupe bílum og voru framleiddir frá 1968-’77. Öll módelin notuðu M30 línu sexu BMW.

Veldið

Það markaði þáttaskil í sögu BMW þegar Eberhard von Kuenheim réði sig til starfa 1968, þá fertugur, frá Daimler-Benz. Hann hafði yfirumsjón með umbreytingu fyrirtækisins frá því að vera innanlandsfyrirtæki sem lagði áherslu á orðspor sitt i Evrópu yfir í að verða alþjóðlegt vörumerki sem virðing var borin fyrir um allan heim.

1972 BMW 520 E12.
1972 BMW 520 E12.

5 línan var kynnt til sögunnar í stað New six árið 1972, hönnuð af Bertone. 3 línan kom fram 1975 í stað New class og þá nýlegir stórir stallbakar BMW urðu 7 línan 1977.

Frá 1970-’93 undir stjórn von Kuenheim 18-faldaðist velta BMW, bílaframleiðsla fjórfaldaðist og mótorhjólaframleiðla þrefaldaðist.

BMW eignaðist British Rover Group árið 1994 og átti til 2000. BRG innihélt merkin Rover, Mini og Land Rover auk sofandi merkja á borð við Austin, Morris, Riely, Triumph og Wolseley.

Kaupin voru heilt yfir ekki árangursrík og eftir mikið streð seldi BMW það sem eftir var af BMG árið 2000 en hélt þó eftir Mini og Triumph en Mini hefur gengið vel eftir að BMW eignaðist merkið.

BMW hefur frá 2003 átt Rolls Royce Motors merkið. Vickers plc sem átti RRM ákvað árið 1998 að selja framleiðsluna. BMW voru taldir líklegastir til að kaupa RRM en BMW hafði skaffað þeim vélar árin á undan. Volkswagen blandaði sér hins vegar í málið og keypti RRM. BMW höfðu hins vegar verið klókir og voru búnir að eignast Rolls Royce nafnið og merkið en Rolls Royce plc, þotumótoraframleiðsla RR, átti hvoru tveggja, ekki bílframleiðsla RR. Þetta setti pálmann í hendur BMW en samningar BMW og RRM kváðu á um að BMW gæti hætt að skaffa Rolls Royce vélar með 12 mánaða fyrirvara en það hefði ekki dugað VW til að endurhanna bílana fyrir sínar vélar. VW dró árar sínar í bát og seldi BMW RRM 2003 og sagðist hvort eð er vilja einbeita sér að Bentley merki sínu.

bmw

Hér hefur verið stiklað á stóru um fyrstu öld BMW hefur verið áhugaverð en það hafa skipst á skin og skúrir í rekstrinum. Fyrirtækið nýtur nú velgengni sem aldrei fyrr og stendur sterkum fótum þegar það byrjar sitt annað árhundrað sem framleiðandi lúxusökutækja. Það verður án vafa áhugavert að fylgjast með hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir Bayeriche Motoren Werke.

DEILA Á