Bíllinn sem stefndi til stjarnanna

731

Það var á þessum degi, 11. júní 1991, sem Volvo frumsýndi 850 GLT bíl sinn í Globe Arena í Stokkhólmi. Bíllinn átti eftir að breyta miklu, ekki aðeins hjá Volvo heldur bílaiðnaðinum almennt en þá nýstárlegur öryggisbúnaður 850 er í dag almennur og sjálfsagður búnaður bíla.

850 var útkoma Galaxy verkefnis Volvo en sænski framleiðandinn fjárfesti gríðarlega í þróun bílsins og raunar var verkefnið ein stærsta iðnaðarfjárfesting sem nokkuð sænskt fyrirtæki hefur ráðist í. Verkefnið var nefnt eftir stjörnuþoku því með bílnum setti Volvo markið hátt.

6410_Volvo_850_RBílinn var settur á markað undir hinu fremur óþjála slagorði „Kröftugur bíll með fjórar heimsnýjungar“. Framdrifinn bíllinn var með 2.4L fimm strokka, 20 ventla, þverstæða línuvél og þótti afbragðs akstursbíll. Heimsnýjungarnar fjórar voru, auk vélarinnar, Delta-link afturás sem hannaður var af Volvo, samþætt hliðarárekstursvarnarkerfi (SIPS) og nýr sjálfstrekkibúnaður í beltum framsæta.

Jan Wilsgaard var yfirhönnuður bílsins og þótt hönnunin minnti mjög á 700 seríu Volvo var 850 algerlega nýr bíll. Þróunarvinnu má rekja aftur til fundar stjórnenda Volvo árið 1978 þar sem þeir ákváðu að kominn væri tími til að Volvo færi sínar eigin leiðir við bílaframleiðslu og setti markið hátt.

6314_Volvo_850_TurboGalaxy verkefnið gat af sér tvö módel, eitt sænskt og annað hollenskt. Grunntækni bílanna var hönnuð í sameiningu en eftir það skildu leiðir teymanna. Hollenski armur Volvo hannaði og þróaði bíl sem kom á markað sem 400 serían en sænski armurinn sá um 850 seríunna.

Fyrsta 850 módelið sem kom á markað var GLT af 1992 árgerð. Hann fékk hefðbundna innsogsútgáfu 20v, fimm strokka vélarinnar sem skilaði 170 hestöflum. Síðar sama ár varð 850 GLT fyrsti framdrifsbíll Volvo á Bandaríkjamarkaði. Næst á eftir kom 850 skutbíllinn á markað í febrúar 1993. Hönnun hans var týpísk fyrir Volvo skutbíla með nær lóðréttan skotthlera til að hámarka notagildi bílsins. Ný hönnun afturljósa leit dagsins ljós á bílnum en afturljósin voru löng og há og þöktu nær allan D-póst bílsins.

Turbo vélar bætast við

6317_Volvo_850_T5_R850 serían fékk fleiri vélar og ein þeirra var kynnt á bílasýningunni í Genf 1994 þegar Volvo frumsýndi T-5R. Spennandi vélin og fölgulur einkennisliturinn gerðu það að verkum að ekki var hægt að líta framhjá bílnum sem var eins og upphrópunarmerki á hjólum á sýningunni. 2.3L L5 turbo vélin var með millikæli og skilaði 240 hestöflum og togaði 330 Nm. Upphaflega stóð til að framleiða bílinn í 2.500 eintökum. Þau seldust upp á örfáum vikum. Á meðal aukabúnaðar voru vindskeiðar, ferhyrnt púst og 17″ Titan felgur. Volvo framleiddi 2.500 svarta T-5R til viðbótar auk sama upplags af dökkgrænum. Sama ár bættist kraftminni útgáfa vélarinnar sem skilaði 222 hestöflum við vélaúrval 850.

6277_Volvo_850_Racing_BTCC1994 var sömuleiðis árið sem Volvo sneri aftur á keppnisbrautirnar og gerði það með stæl. Volvo mætti til keppni í Bresku touringbílakeppninni (BTCC) með tvo 850 skutbíla sem vakti gríðarlega athygli. Volvo fjárfesti mikið í keppnisbílum sínum ásamt Tom Walkinshaw Racing en ökumenn voru Svíinn Rickard Rydell og Hollendingurinn Jan Lammers. 1995 úthýstu reglubreytingar BTCC skutbílum svo Volvo varð að skipta yfir í stallbaka. Það keppnistímabil hafnaði Rydell í þriðja sæti ökumanna.

Áframhaldandi þróun

Strax frá byrjun töluðu fjölmiðlar um 850 sem „öruggasta bíl heims“ en hann átti stóran þátt í ímyndarsköpun Volvo sem framleiðanda afburða öruggra bíla. 1995 bættist önnur rós í hnappagat öryggisbúnaðar 850 þegar bíllinn varð fyrsti fjöldaframleiddi bíll heims með hliðarloftpúða.

850 AWD kom á markað 1996 og varð fyrsti fjórhjóladrifni fólksbíll Volvo. Sídrifskerfi bílsins var með seiglukúplingu (e. viscous coupling) sem deildi afli sjálfvirkt eftir þörfum milli ása. Ef eitt afturhjól byrjaði að spóla færði rafrænt TRACS kerfið til þess framhjóls sem hafði betra grip. 850 AWD var knúinn nýþróaðri 2.4L L5 vél Volvo með lágþrýsta túrbínu sem skilaði 193 hestöflum og var forveri XC línu sænska framleiðandans.

1996 var síðasta heila árið sem 850 var í framleiðslu. Bíllinn gekkst undir miklar endurbætur um mitt ár 1997 og úr varð 70 sería Volvo þar sem skutbíllinn fékk nafnið V70 en stallbakurinn S70. Alls voru 1.360.522 bílar framleiddir sem rekja mátti til 850 seríunnar.

DEILA Á