Besti fyrsti ársfjórðungur og besti mánuður í sögu Audi

35
Audi A4 er þungarviktarbíll fyrir þýska lúxusbílaframleiðandann.

Audi er á siglingu þessa mánuðina en aldrei fyrr hefur þýski lúxusbílaframleiðandinn selt jafn marga bíla á fyrsta ársfjórðungi og í ár. Þá var marsmánuður söluhæsti mánuður fyrirtækisins frá upphafi.

Samtals seldi Audi 455.750 bíla á fyrstu þrem mánuðum ársins en það er aukning upp á 4%. Þar af seldust 4,6% fleiri bílar í marsmánuði í ár en í sama mánuði í fyrra eða alls 186.100 bílar en Audi hefur aldrei fyrr selt fleiri eintök í einum mánuði.

Vöxtur á fyrsta ársfjórðungi skrifast fyrst og fremst á aukna eftirspurn í Evrópu og N-Ameríku en Kína hefur þó átt sinn þátt í vextinum.

Á fyrsta ársfjórðungi seldi Audi 222.350 bíla í Evrópu en það er aukning um 7,3% frá sama tímabili í fyrra. Aukin sala í Þýskalandi (+10,8%), á Ítalíu (+28,7%) og á Spáni (+14,4%) skipti þar mestu.

Í N-Ameríku jókst salan á sama tímabili um 5,6% frá fyrra ári með um 57.500 eintök seld og í Kína var aukningin 4,7% en þar seldi Audi 139.540 bíla.

Megnið af söluaukningunni skrifast á hina nýju A4 og Q7 bíla Audi en þeim hefur verið afar vel tekið á helstu mörkuðum framleiðandans.

DEILA Á