Audi SQ2 við prófanir á Nürburgring

328

Audi Q2 er enn ekki kominn í sölu en þó hafa myndir náðst af bíl á Nürburgring sem lítur út fyrir að vera SQ2, og það óhulinn.

Aðeins eru nokkrir dagar síðan fréttir bárust af því að Audi væri að skoða möguleikann á SQ2 en ef marka má útlit bílsins sem sást til á Nürburgring, með breyttum framstuðara með stærri loftinntökum og vinddreifara að aftan auk stærri felgna og bremsa, er þýski framleiðandinn kominn mun lengra með bílinn en þeir þá viðurkenndu.

Búist er við að SQ2 fá sömu vél og S3, 2.0L fjögurra strokka turbo TFSI sem er 310 hestöfl og togar 380 Nm. Hún skilar S3 í 100 km hraða á 5,2 sekúndum en með S Tronic sjálfskiptingu Audi er hann 0,3 sek. sneggri með sprettinn.

Þrátt fyrir að Q2 með þessari vél yrði eflaust firna skemmtilegur er orðrómur uppi um að Audi láti ekki staðar numið við SQ2 heldur fylgi honum eftir með RS Q2 sem þá fengi væntanlega 367 hestafla 2.5L fimm strokka línuvél RS 3 sem togar 465 Nm.

Sjá einnig: Svona gæti Audi RS Q2 litið út

DEILA Á