Audi Q2 kemur í haust

359

Audi Q2 smásportjeppinn er tilbúinn til framleiðslu og kemur á markað í haust.

Q2 er hugsaður sem þéttbýlisbíll þrátt fyrir að vera partur af Q-seríu Audi. Fókusinn við hönnun bílsins var settur á að sameina framsækna hönnun við mikið notagildi. Margmiðlunarkerfi og öryggiskerfi eru á pari við stærri bíla Q-seríunnar.

Það eru margir hornpunktar og brúnir í útliti bílsins. Stórt, átthyrnt einkennisgrill Audi er að sjálfsögðu á sínum stað milli smárra en svipmikilla aðalljósa. Stór loftinntökin undirstrika svo kraftalegan framsvipinn.

Q2 er 1,51 m á hæð, 1,79 m á breidd og 4,19 m að lengd og stutta skörun fram- og afturfyrir hjól en hjólhafið er 2,6 m. Farangursrýmið er 405 lítrar og hægt er að panta bílinn með rafstýrðri lokun á skotthlera.

Að innan ættu eigendur Audi að þekkja sig vel en í Q2 situr ökumaður lágt miðað við stýrisstöðu líkt og í A bílum framleiðandans. Bíllinn fæst með stafrænu mælaborði og „head-up display“ en þá er mælaborðinu varpað upp á framrúðuna. Einnig fæst LED ljósapakki sem lýsir innréttinguna upp á smekklegan máta. Smásportjeppinn er vel búinn öryggisbúnaði t.d. árekstrarvara sem nemur bæði bíla og gangandi vegfarendur og bregst við ef þörf krefur, hraðaaðlagandi hraðastilli, umferðarteppuaðstoð og akgreinavara.

DEILA Á