Atero Coupe er hugmyndabíll lærlinga Skoda

185

Skoda Atero Coupe er hugmyndabíll sem 26 lærlingar tékkneska framleiðandans hönnuðu út frá Rapid Spaceback.

Hönnun bílsins hófst í lok árs 2015. 22 karlar og 4 konur skiluðu 1.700 klukkustundum við vinnu bílsins. Lærlingarnir færðu B-stólpa Rapid aftar og halli C-stólpa er brattari auk þess sem afturhalli þaks byrjar framar en á Rapid Spaceback. Skotthlerinn nær fram á mitt þakið og verður því að þaki bílsins yfir aftursætunum og er að stærstum hluta úr gleri.

Hugmyndabíllinn er Black Magic svartur með Corrida Red rauðar strípur á sílsum, framstuðara, spegilhúsum og á afturvindskeið auk þess sem grillið hefur rauðar útlínur og húddristar eru rauðar.

Rauður litur kemur einnig við sögu í innanrými Atero Coupe en stemningslýsing bílsins er rauð. 1.800 watta magnari knýr 14 hátalara og 400 watta bassakeilu sem staðsett er í skottinu.

Vél hugmyndabílsins er 1.4L TSI bensínvél sem skilar 123 hestöflum og við hana er sjö þrepa DSG skipting. Púststútar eru fengnir að láni frá Octavia RS og þeir gægjast út úr rauðum fleti neðst á afturstuðara. Bremsur hafa verið uppfærðar en Atero Coupe fær loftaða og boraða bremsudiska sem sitja fyrir innan svartar 18″ Turini felgur með rauðri rönd á ytri hring.

Skoda Atero sýnir hve mikilli tæknikunnáttu og verkþekkingu nemendur okkar búa yfir. Við þökkum öllum sem hafa lagt verkefninu lið.

sagði stjórnarmaður mannauðs hjá Skoda, Bohdan Wojnar.

Verkmenntaskóli Skoda var stofnaður 1927 og býður þriggja og fjögurra ára nám í bíltæknifræðum. Að jafnaði stunda um 900 nemendur nám við skólann í 14 námskeiðum. Um 14% nemenda eru kvenkyns og um 100 núverandi starfsmenn Skoda stunda nám við skólann til að auka færni sína og þekkingu. Allir útskriftarnemendur Verkmenntaskóla Skoda fá atvinnutilboð frá framleiðandanum.

Atero Coupe er þriðji fullkláraði bíllinn sem nemendur skólans smíða en 2014 sýndu þeir CitiJet borgarblæjubílinn og í fyrra fylgdi FUNSTAR pallbíllinn.

DEILA Á