Alfa Romeo og fjögurra laufa smárinn

463

Í bráðum heila öld, frá árinu 1923, hafa kappakstursbílar og síðar aflmiklar útgáfur Alfa Romeo bíla skartað fjögurra laufa smára. Smárinn er staðsettur á hliðum bílanna, yfir eða rétt aftan við framhjól, málaður inn í hvítan þríhyrning.

Fjögurra laufa smári, quadrifoglio á ítölsku, birtist fyrst á kappakstursbíl Alfa Romeo árið 1923 þegar ítalski ökuþórinn Ugo Sivocci málaði hann á hlið grills bíls síns. Sivocci var árið 1920 ráðinn til kappakstursliðs Alfa Romeo, Alfa Corse, af vini sínum og stjóra liðsins Enzo Ferrari til að vera, ásamt Enzo og Antonio Ascari, einn þriggja ökumanna liðsins. Sivocci var reynslumikill keppnismaður en þótti heldur óheppinn og var frægur fyrir að vera sá besti sem aldrei vann neitt. Fyrir Targa Florio kappaksturinn, sem var þolaksturskeppni sem fram fór í fjalllendi Sikileyjar, málaði Sivocci fjögurra laufa smára á grill keppnisbíls síns sem tilraun til að flæma frá sér óheppnina. Tilraunin heppnaðist og Sivocci sigraði Targa Florio.

1923 Alfa Romeo RL sem vann Targo Florio.
1923 Alfa Romeo RL sem vann Targa Florio.

Fáeinum mánuðum síðar var Sivocci við prófanir á P1 Grand Prix keppnisbíl á Monza brautinni sem hannaður var af yfirhönnuði Alfa Romeo, Giuseppe Merosi. Sivocci missti stjórn á bílnum, sem ekki skartaði fjögurra laufa smára, í beygju og hafnaði á vegg. Sivocci lést í slysinu. Síðan hafa allir keppnisbílar Alfa Romeo borið fjögurra laufa smára.

Fyrsti götubíllinn til að skarta fjögurra laufa smára var 1963 Alfa Romeo Giulia TI Super. Aðeins 501 eintak var framleitt. Giulia TI Super var knúinn af 1.570 rúmsentimetra vél sem búin var tvöföldum Weber 45DCOE blöndung og skilaði 110 hestöflum og var einn fyrsti kraftmikli stallbakurinn til að fara í almenna sölu. Bíllinn var hannaður í vindgöngum og hafði vindstuðul CD 0.34 sem þótti sérstaklega lágt fyrir stallbaka þess tíma.

1963 Alfa Romeo Giulia TI Super
1963 Alfa Romeo Giulia TI Super

Frá og með áttunda áratugnum hétu kraftmestu útgáfur Alfa Romeo Quadrifoglio verde, sem myndi útleggjast sem grænn fjögurra laufa smári. Alfasud, Sprint, 33, 75, 164 og 145 fengust allir í Quadrifoglio verde útfærslu. Á áttunda og níunda áratug fengust einnig Quadrifoglio oro, gyllti fjögurra laufa smárinn en það voru íburðarmestu útgáfur Alfa Romeo. Alfasud, Alfetta, Alfa 6, 90 og 33 fengust sem slíkir.

Í byrjun þessarar aldar bar ekki mikið á fjögurra laufa smárum fyrr en hann birtist á 2007 Alfa Romeo 8C í Competizione og Spider útfærslum sem voru búnar 444 hestafla V8 vélum. Núverandi bílar Alfa Romeo sem fá má í Quadrifoglio verde útfærslu eru smábílarnir MiTo og Giulietta.

2016 Alfa Romeo Giulia verður nýjasta viðbótin við fjögurra laufa smáranna.
2016 Alfa Romeo Giulia verður nýjasta viðbótin við fjögurra laufa smáranna.

Nú í ár bætis við úrvalið þegar ný Giulia býðst almenningi. Alfa Romeo Giulia Quadrifoglio verde fær 510 hestafla, 2.900 rúmsentimetra V6 twin turbo vél og nær hundrað kílómetra hraða á 3,9 sekúndum og aftur í kyrrstöðu á 32 metrum búinn keramik bremsum. Við prófanir á Nürburgring nordschleife setti Giulia QV met stallbaka þegar bíllinn fór brautina á 7:39.0.

Eftir fremur dapra undanfarna áratugi er full ástæða til bjartsýni varðandi Alfa Romeo en Sergio Marchionne, forstjóri Fiat Chrysler automobiles, móðurfyrirtækis Alfa Romeo, ætlar merkinu að verða leiðandi í framleiðslu lúxus- og sportbíla. Við það munu fjögurra laufa smárarnir spila stórt hlutverk.

DEILA Á