Alfa Romeo hefur sölu Giulia

198

Alfa Romeo hefur hafið sölu Giulia og sent frá sér allar upplýsingar um diesel úrvalið en fyrst um sinn fæst Giula aðeins með 2.2L L4 dieselvél í tveimur útfærslum auk QV módelsins.

Vélin er fyrsta dieselvél Alfa Romeo sem er smíðuð alfarið úr áli en hún er með nýjasta Multijet II innspýtingarkerfi Alfa Romeo. Túrbínan er rafstýrð til að lágmarka hik og auka eldsneytisnýtni. Alfa Romeo notast einnig við tromluás til að minnka víbring vélarinnar og þar með auka á þægindi bílsins.

Grunnútgáfa vélarinnar er 147 hestöfl við 4.000 sn./mín, togar 380 Nm við 1.500 snúninga og kemur bílnum í 100 km hraða á 8,4 sekúndum en 8 þrepa sjálfskiptingin sem er í boði kemur honum 0,2 sekúndum hraðar í hundraðið en vélin togar 450 Nm þegar bíllinn er tekinn með sjálfskiptingu. Hámarskhraði er 220 km/klst.

Öflugri útgáfa vélarinnar er 177 hestöfl við 3.750 snúninga en togar það sama og grunnútgáfan. Í hröðun bílsins munar um auka hestöflin en með þessari vél er Giulia 7,2 sekúndur í 100 km hraða, 7,1 sek. ef hann er sjálfskiptur og hámarskhraði er 230 km/klst.

Uppgefin eyðsla beggja véla er 4,2 l/100 km og CO2 útblástur 109 g/km.

Allar útfærslur Giula fá nýtt IBS bremsukerfi Alfa Romeo sem samþættir stöðugleikakerfi bílsins við hefðbundnar aflbremsur. IBS tryggir að sögn Alfa Romeo að ökumaður fá „afbragðs tilfinningu en sé alveg laus við pedalavíbring“ en Giulia stoppar úr 100 km hraða á 38,5 m sem er það besta sem þekkist í þessum flokki bíla.

Undirvagninn nýtur góðs af virku fjöðrunarkerfi sem fyrirtækið kallar Alfa Link en fjöðrunin er tvöföld klafafjörðun að framan en fjölliða að aftan.

6,5″ upplýsingaskjár er staðalbúnaður en 8,8″ Connect 3D Nav upplýsingakerfi sem stjórnað er með snúningshjóli í miðjustokk er valkvæður aukabúnaður en kerfinu má einnig raddstýra auk þess sem það styður tengingu við alla farsíma. Kerfið sýnir kort í þrívídd en skjáinn má einnig nota til að skoða ýmiskonar aksturstengdar upplýsingar. Árekstrarvari og sjáflvirk neyðarhemlun er staðalbúnaður.

Þrjár búnaðarútfærslur verða í boði; Giulia, Super og Quadrifoglio Verde en sú síðast nefnda fæst aðeins með 2.9L 503 hestafla V6 vélinni. Alfa Romeo mun bjóða aukapakka á borð við Sport Pack, Assistance Pack og Business Pack fyrir þá sem vilja meiri búnað en Mopar mun einnig bjóða úrval aukahluta fyrir Giulia.

Alfa Romeo Giulia má nú panta á Ítalíu, Spáni, í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Belgíu, Sviss og Hollandi. Nánari upplýsingar um 2.0L bensínvélina hafa enn ekki verið gefnar út.

Verðmiði Giulia í heimalandinu Ítalíu er frá 35.500 evrum, rétt tæpar 5 milljónir króna.

Ís-Band hefur tryggt sér Alfa Romeo umboðið á Íslandi svo það verður að teljast líklegt að senn sjáum við svona bíl á götum landsins.

DEILA Á