Af merkinu sem ljáði jeppum nafn sitt

750

Jeep merkið rekur sögu sína aftur til fyrirtækisins Willys-Overland Motors sem stofnað var 1908 í Toledo í Ohio af John North Willys, gjarna kallað Willys til styttingar. Jeep hefur allar götur staðið fyrir nýsköpun og þróun fjórhjóladrifinna bíla.

Saga Jeep hófst með Willys MB sem framleiddur var 1941-45, bíls sem í þá daga var gjarna kallaður Jeep í daglegu tali. Árið 1940 bauð bandaríski landherinn út smíði léttbyggðs, fjölhæfs og fjórhjóladrifnis farartækis sem skyldi hafa lágan prófíl með niðurfellanlega framrúðu, með minnst 40 hestafla vél og kæmist yfir vegleysur með 300 kg hleðslu auk þriggja manna en tækið mátti ekki vera þyngra en 590 kg. Herinn bauð 135 framleiðendum að taka þátt en aðeins tvö fyrirtæki skiluðu teikningum; Willys og American Bantam. Hönnun Willys var þó ekki tekin gild vegna fyrirvara og hönnun Bantam því hlutskörpust.

Willys MB.
Willys MB.

American Bantam var hins vegar afar smátt fyrirtæki með aðeins 20 starfsmenn og átti erfitt með að mæta magnframleiðslukröfum Hermálaráðuneytisins. Eins og þá tíðkaðist hafði ráðuneytið eignaðist öll hönnunargögn bílsins þegar hönnun Bantam var valin. Ráðuneytið brá því á það ráð að láta Willys og Ford hafa hönnunina og láta öll þrjú fyrirtækin smíða frumgerð. Frumgerð Willys, nefnd MA, M fyrir Military og A fyrir fyrstu gerð, var talin álitlegust og valin til framleiðslu með 63 hestafla fjögurra strokka „Go Devil“ hliðarventlavél sem staðalgerð. Eftir minniháttar breytingar þar sem helstu kostir frumgerða Bantam og Ford voru settir í hönnunina var Willys MB fullmótaður og tilbúinn til fjöldaframleiðslu.

Fyrir Willys-Overland og Toledo borg hafði MB gríðarlega þýðingu. Á stríðsárunum framleiddi fyrirtækið tæplega 363.000 jeppa. Á nánast einum mánuði, snemma árs 1942, fjölgaði starfsmönnum úr 1.100 í 16.000. Alls voru framleiddir um 590.000 MB en Ford framleiddi um 227 þúsund eintök. Bantam heltist hins vegar úr lestinni áður en að fjöldaframleiðslu kom eftir að hafa mistekist að ná samningum við samstarfsaðila að framleiðslunni.

Tilurð Jeep nafnsins er nokkuð á reiki en almennt er hallast að því að um afbökun á framburði skammstöfuninnar GP sé að ræða en Willys MB taldist General Purpose Vehicle hjá hernum eða farartæki til almennra nota. Willys fékk Jeep skráð sem vörumerki sitt 1946. Hið einkennandi sjö ráka grill er útfærsla samskonar hönnunar af frumgerð Ford sem rataði á MB en á þeim voru rákirnar níu talsins.

Willys CJ-2A.
Willys CJ-2A.

Eftir stríð eða í lok árs 1945 setti Jeep CJ-2A á markað þar sem CJ stendur fyrir Civilian Jeep eða almennings Jeep. CJ-2A var lítð breytt útgáfa Willys MB, framleiddur til 1949 og einkum ætlaður til t.d. landbúnaðarnotkunar. Jeppinn var fyrsti fjöldaframleiddi torfærubíllinn ætlaður til almenningsnota.

Ári eftir að Willys setti CJ-2A á markað kom Willys Wagon út. Wagon má kalla fyrsta sportjeppa (SUV) heims en hann var í það minnsta fyrsti afturbyggði bíllinn til að hafa stályfirbyggingu sem ekki var seldur sem atvinnubíll. Í Wagon var pláss fyrir sjö manns en hann þótti afar hagnýtur vegna hönnunar sinnar og drifrásar. Wagon fékkst upphaflega aðeins afturdrifinn en 1949 kynnti Willys fjórhjóladrifna útgáfu til sögunnar. Þar með var fyrsti fjórhjóladrifni skutbíll heims og brautryðjandi sportjeppa nútímans fæddur. Wagon var framleiddur til 1965 en í Argentínu var hann í framleiðslu til 1981.

Jeep CJ-5.
Jeep CJ-5.

Eftir að CJ-3A hafði tekið við af 2A 1948, í aðalatriðum óbreyttur fyrir utan heila framrúðu í stað tvískiptrar, tók CJ-5 við keflinu 1955. CJ-5 var síðasti eiginleigi Willys jeppinn því fyrirtækið Kaiser-Frazer hafði sameinast Willys-Overland 1953 og úr varð Kaiser Jeep. Framfarir í vél, öxlum, gírkössum og almennum þægindum hjálpuðu við að gera CJ-5 að kjörnu farartæki fyrir almenning sem nú hafði meiri áhuga og efni á farartækjum til afþreyingar. CJ-5 sló í gegn og hafði selst í rúmlega 600.000 eintökum þegar framleiðslu var hætt 1983.

Jeep Grand Wagoneer.
Jeep Grand Wagoneer.

Þegar Jeep Wagoneer kom á markað 1963 gat Jeep endanlega gert kröfu til að hafa skapað fyrsta fullvaxna sportjeppann. Wagoneer var nýr bíll frá grunni og sá fyrsti til að bjóða sjálfskiptingu við fjórhjóladrif. Það var þó ekki eina byltingin sem með honum kom því Wagoneer var fyrsti fjórhjóladrifni bíllinn með sjálfstæða fjöðrun að framan auk þess að hafa fyrsta „full-time“ sídrifið þegar Quadra-Trac fjórhjóladrifið var kynnt til sögunnar 1973. Grand Wagoneer leysti Wagoneer af hólmi 1984 og var á markaði til 1991. Grand Wagoneer varð einkar vinsæll hjá fræga fólkinu og þótti mikið stöðutákn sem aftur varð til að auka vinsældir hans meðal almennings.

1970 eignaðist American Motors Corporation Kaiser-Jeep og endurnefndi fyrirtækið Jeep Corporation og varð dótturfélag AMC.

Jeep Cherokee SJ.
Jeep Cherokee SJ.

Fjórum árum síðar kom fyrsti Cherokee (SJ) á markað en hann var tveggja dyra útgáfa Wagoneer en án íburðar stóra bróður síns. Cherokee átti að höfða til yngri kaupenda en Wagoneer og var smíðaður til að anna eftirspurn sístækkandi markaðar tómstundabíla. SJ Cherokee var framleiddur í níu ár en 1984 tók önnur kynslóð við sem þó var nýr bíll frá grunni, XJ Cherokee. Sá var fyrsti sportjeppinn með sjálfberandi grind (unibody), enn ein nýsköpun Jeep á sviði jeppa. Hann var einnig umtalsvert minni en SJ og bjó í raun til nýjan stærðarflokk minni sportjeppa sem síðar átti eftir að verða gríðarvinsæll á okkar dögum.

1986 tók Wrangler YJ við af CJ línu Jeep en hann telst ekki beinn afkomandi Willys MB þrátt fyrir að hönnun hans sé mikið innblásin af útliti og drifbúnaði jeppans goðsagnakennda.

Chrysler eignaðist American Motors Corporation 1987 ásamt dótturfyrirtækjum, Jeep þar með talið. Jeep er í dag í eigu Fiat Chrysler Automobiles sem varð til í október 2014 þegar Fiat S.p.A lauk við yfirtöku á Chrysler Group LLC sem hafði orðið gjaldþrota 2009.

Jeep Grand Cherokee ZJ.
Jeep Grand Cherokee ZJ.

Síðasta skref Jeep við sköpun og mótun sportjeppans var tekið þegar Grand Cherokee ZJ kom á markað 1992. Grand Cherokee var ætlað að vera flaggskip Jeep og var fyrsti sportjeppinn sem var með loftpúða fyrir farþega í framsæti auk þess að vera sá fyrsti sem boðinn var með þremur mismunandi fjórhjóladrifskerfum. Eitt þeirra var Quadra-Trac kerfi Jeep sem brást sjálfkrafa við aðstæðum án þess að ökumaður þyrfti að skipta. 1993 árgerð ZJ mátti fá með Grand Wagoneer nafninu en það var sérútgáfa Grand Cherokee og var með viðarklæðningum á hliðum og íburðarmeiri en Limited útgáfan með sérstöku leðuráklæði á sætum. Þetta var í síðasta skipti sem Grand Wagoneer nafnið var notað af Jeep.

Grand Cherokee er enn þann dag í dag flaggskip Jeep og er nú á sinni fjórðu kynslóð. Jeep heldur áfram að þróa, bæta og fága sportjeppann og býður ýmsar útfærslur af bílum sínum, allt frá þægilegum þjóðvegakrúserum til dugandi torfærutækja eftir því til hvers lags brúks kaupendur hyggjast nota bíla sína.

Höfuðstöðvar Jeep eru enn í dag staðsettar í Toledo í Ohio þar sem forverinn, Willys-Overland Motors, var stofnað.

DEILA Á