Aðdáendur Top Gear vilja Jenson Button í stað Chris Evans

162

Chris Evans hefur farið misjafnlega í aðdáendur Top Gear en þó virðist meirihlutinn á því að hann eigi ekki erindi sem erfiði í hlutverki stjórnanda þáttanna.

Annar þáttur nýju þáttaraðarinnar var sýndur á BBC Two í gær og fékk heldur dræmt áhorf, í það minnsta á mælikvarða Top Gear. Í fyrsta atriði þáttarins ók Chris Evans McLaren 675LT með Formula 1 ökumann McLaren liðsins og fyrrum heimsmeistarann Jenson Button sér við hlið. Þeir skiptu svo um hlutverk og Button settist undir stýri. Button þótti standa sig vel, bæði hvað varðar akstur en ekki síður í hlutverki sjónvarpspersónu. Þó nokkrir tístarar þóttust þar með hafa lausn á vandamáli Top Gear; skipta Evans út fyrir Button.

Evans þykir of hávær en hróp hans fara svo mikið í taugarnar á aðdáendum þáttanna að einn þeirra lagði til að hann fengi kjaftshögg. Annar sagði þáttinn þó ekki alslæman en að Chris Evans þyrfti að hætta að öskra og vera ekki í Top Gear.

Matt LeBlanc kemur þó ágætlega út hjá tísthernum og þykir hafa staðið sig vel í fyrstu tveimur þáttunum og einn gengur svo langt að segja að LeBlanc hefði passað vel með gamla teyminu.


Hvort breskir veðbankar hafi rétt fyrir sér og að Chris Evans verði látinn taka pokann sinn í lok þáttaraðarinnar verður að koma í ljós. Hvort Button hafi áhuga á starfinu eða hvort BBC geti keppt við McLaren F1 þegar kemur að launum er svo allt annar handleggur.