7.000 forpantanir hafa borist í Nikola One rafflutningabílinn

299

Nikola Motor Company hóf að taka við forpöntunum í One rafflutningabíl sinn strax eftir forsýningu í síðasta mánuði en nú hafa borist yfir 7.000 forpantanir í bílinn.

Árangurinn verður að teljast stórgóður en Nikola hefur enn ekki frumsýnt bílinn, ekki einu sinni frumgerð, heldur aðeins gefið út tæknilýsingar og tölvuteikningar. Samkvæmt fréttatilkynningu Nikola hefur fyrirtækið fengið 2,3 milljarða dollara inn í gegnum forpantanirnar.

Tækni okkar er 10-15 árum á undan nokkrum öðrum framleiðanda hvað varðar eldsneytisnýtni, eldsneytisnotkun og útblástur. Við erum eini framleiðandinn sem býður nær útblásturslausan flutningabíl sem samt stendur sig betur en hefðbundinn dieselknúinn flutningabíll. Það eru engin önnur fordæmi fyrir því að hafa fengið yfir 7.000 forpantanir sem samtals hafa skilað 2,3 milljörðum dollara með fimm mánuði til frumsýningar.

sagði í tilkynningu frá Nikola en One verður frumsýndur 2. desember næstkomandi í heimaborg Nikola, Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum.

One flutningabílinn á að hafa rúmlega 1.900 km drægni og skila rúmum 2.000 hestöflum og toga yfir 5.000 Nm. Við hvert sex hjóla bílsins er rafmótor en um borð er einnig gashverfil sem gengur fyrir jarðgasi til að framleiða rafmagn en fyrir jarðgasið er 570 l tankur um borð.

Til að komast í forpantanaröðina þarf að reiða fram 1.500 dollara, um 185.000 kr.-, en viðskiptamódel Nikola gerir þó aðallega ráð fyrir að bílarnir fari á kaupleigu fyrir um 5.000 dollara, um 600.000 kr.-, á mánuði til fyrirtækja og einyrkja en þá fylgir eldsneyti með í leigunni, óháð akstri sem og viðhald.

Sjá einnig: Nikola Motor vill rafvæða flutningabílaflotann

DEILA Á