60 kWh rafhlaðan snýr aftur í Tesla Model S

165

Tesla hefur ákveðið að bjóða aftur 60 kWh rafhlöðu í Model S bíl sinn en sú stærð var tekin úr sölu í fyrra eftir að hafa á sínum tíma komið í staðinn fyrir 40 kWh rafhlöðuna sem fékkst upphaflega í bílnum.

Í raun er um 75 kWh rafhlöðu að ræða sem er læst við 60 kWh en hugbúnaðaruppfærsla getur, gegn 8.500 dollara (1 milljón kr.) gjaldi, aflæst kílówattstundunum 15 sem upp á vantar til að auka drægni um 20% eða upp í um 405 km.

Með 60 kWh rafhlöðunni er drægni Model S um 338 km. Fjórhjóladrifsútgáfan, S 60D, dregur ögn lengra eða 350 km auk þess að ná 100 km hraða á skemmri tíma, 5,2 sekúndum gegn 5,5 sekúndum S60.

Báðar útgáfur koma með fríum aðgangi að Supercharger hraðhleðsluneti Tesla, reglulegum uppfærslum gegnum netið, lyklalausu aðgegni auk öryggisbúnaðar á borð við árekstrarvara, sjálfvirka neyðarhemlun, fjarlægðarskynjara og blindpunktsviðvörun svo eitthvað sé nefnt.

Grunnverð Model S 60 er 66.000 dollarar, um 8,1 milljónir króna fyrir bandaríska skattaafslætti sem lækkað geta verðið þarlendis niður í um 7,2 milljónir króna. Afhendingar Model S 60 hefjast strax í júlí.

DEILA Á