50 ára afmæli Miura fagnað með akstri um Alpana

87

Lamborghini Miura var hannaður af ungum verkfræðingum ítalska sportbílaframleiðandans á frítíma þeirra en þeir hittust gjarna eftir vinnu, í óþökk forstjórans Ferrucccio Lamborghini, og tóku skurk við hönnun bílsins.

Afrakstur vinnunnar var fyrst sýndur 1965 á bílasýningunni í Tórínó í formi rúllandi undirvagns og fullbúin frumgerð Miura P400 með yfirbyggingu hannaða af Marcello Gandini hjá Carrozzeria Bertone vagnasmiðnum var svo sýnd á bílasýningunni í Genf 1966.

Nú fimmtíu árum seinna er þessi goðsagnakenndi bíll Lamborghini alls ekki gleymdur og til að fagna stórafmælinu var þremur bílum af safni Lamborghini ekið sömu leið og Miura var ekið í frægu byrjunaratriði kvikmyndarinnar The Italian Job frá 1969 sem sjá má í spilaranum að neðan.

Bílarnir fengu fylgd frá ítölsku vegalögreglunni, Polizia Stradale, og ítölsku vegagerðinni, ANAS, upp krappar beygjur þjóðvegar 27 sem liggur um Gran San Bernardo fjallaskarðið í ítölsku Ölpunum. Skarðið var opnað sérstaklega fyrir aksturinn en að jafnaði er það aðeins opið frá júní til september.

Við athöfn sem haldin var hittust fyrrnefndur Marcello Gandini og verkfræðingarnir Gian Paolo Dallara og Paolo Stanzani á gleðilegum endurfundi en þeir tveir voru yfir tæknihönnun bílsins.

Miura var framleiddur í 764 eintökum frá 1966 til 1973. 350 hestafla 3.9L V12 vélin var þverstæð og miðjusett og aflið sent til afturhjóla. Lamborghini Miura kostaði um 2,5 milljónir króna á sínum tíma en í nútímapeningum væri það nær 18,7 milljónum.

DEILA Á