1991 BMW 850i ekinn tæpa 1.800 km á uppboði

622

BMW 8 serían samanstóð af nokkrum útgáfum E31 Coupé og var í framleiðslu frá 1989-99. Bíllinn var kynntur á bílasýningunni í Frankfurt 1989, drekkhlaðinn nýjundum sem hæfðu þessu þáverandi flaggskipi bæverska bílaframleiðandans.

Margar nýjungar litu fyrst dagsins ljós í E31. Má þar nefna fyrstu rafboðastýrðu (e. fly-by-wire) bensíngjöfina, CAN-gagnabrautir voru notaðar til að einfalda og létta rafkerfi bílsins en í dag er það framleiðslustaðall í bílaiðnaðinum og fjölliða fjöðrun BMW birtist fyrst á E31. Eins tilkomumiklar og allar þessar nýjungar var það þó fyrst og fremst fegurð bílsins sem heillaði.

Bíllinn var gríðarlega vel búinn og íburðarmikill enda átti hann að höfða til best stæðu viðskiptavina BMW. Í upphafi var E31 með 5.0L V12 M70B50 vél sem skilaði 296 hestöflum og togaði 447 Nm. Fjórar vélar til viðbótar áttu eftir að standa kaupendum til boða á líftíma bílsins; tvær V8 og tvær V12. Afl M70B50 vélarinnar kom E31 í 100 km hraða á 6,8 sekúndum og hámarkshraði var takmarkaður við 250 km/klst. Við vélina var annað hvort fimm þrepa ZF 4HP24 sjálfskipting eða sex gíra Getrag 560G beinskipting.

Einstakt eintak af E31 fer undir hamarinn á uppboði í Danmörku á morgun, laugardag. Um er að ræða 1991 árgerð af 850i sem alla tíð hefur verið í eigu sama manns. Í bílnum er fyrrnefnd M70B50 vél BMW og sex gíra beinskipting en bílnum hefur aðeins verið ekið 1.759 km frá upphafi.

Fyrsta þjónustuskoðun bílsins var framkvæmd 19. maí 1995 og næst heimsótti hann BMW umboð 2. júní 2015. Bíllinn hefur alla tíð verið geymdur við ákjósanlegar aðstæður og fremur litið á hann sem safngrip en samgöngumáta. Í þjónustuhandbókinni má sjá að fyrstu tvær þjónustuskoðanirnar hafi verið framkvæmdar í Verona á Ítalíu en sú þriðja og síðasta í Búkarest í Rúmeníu.

Verðmiði nýs 850i var um 11 milljónir króna á sínum tíma og aðeins um 20.000 eintök voru framleidd fram til 1994 en alls taldi framleiðsla E31 31.062 eintök. Aðeins um 1.000 eintök 850i voru framleidd með beinskiptingu og það eru varla mörg, ef nokkur önnur eintök ekinn jafn lítið og þetta sem mögulega er það besta sinnar tegundar.

Bíllinn verður boðinn upp á uppboði Silverstone Auctions í Árósum í Danmörku á laugardag. Búist er við að hann verði sleginn á 11,1-12,5 milljónir króna. Á sama uppboði verður óuppgerður 1952 Jaguar XK120 „hlöðufundur“ einnig boðinn upp.

DEILA Á