1974 Bjalla ekin 90 km á uppboði í Danmörku

1737

Nær ónotuð 1974 árgerð af Volkswagen Bjöllu í óaðfinnanlegu ástandi fer undir hamarinn í Danmörku laugardaginn 28. maí næstkomandi.

Bjallan var seld ný af G. Terragni Volkswagen umboðinu í Genoa á Ítalíu 23. janúar 1974 til eldri manns að nafni Armando Sgroi en hann hafði aldrei áður átt bíl. Raunar langaði Sgroi ekkert í bíl en þar sem hann var afar trúaður og fór í kirkju á hverjum sunnudegi þurfti hann bíl þar sem lappir hans voru orðnar ansi lélegar en hann var vanur að ganga til kirkju sinnar. Bjölluna notaði hann aðeins á sunnudögum til að aka til kirkju en aldur Sgroi fór að segja til sín misserin eftir kaupin og kirkjuferðirnar urðu æ færri. Bíllinn var síðast notaður 1978, þá ekinn rétt tæpa 90 km og hefur verið í geymslu síðan þá eða í 38 ár.

Undir bílnum eru upprunalegu Firestone dekkin og upprunaleg olía er enn á mótornum. Bjallan er ljósblá að lit með svartri innréttingu. Allar bækur fylgja með sem og óopnað viðgerðarsettið sem fylgdi bílnum. Þá fylgir einnig sölunóta stíluð á Sgroi, dagsett 23. janúar 1974 upp á 1.760.640 lírur.

Bjallan verður boðin upp á Classic Race uppboði Silverstone Auctions uppboðshússins í Árósum í Danmörku 28. maí næstkomandi. Búist er við að bíllinn verði sleginn á 35-40.000 evrur, 4,9-5,6 milljónir króna.