1966 Shelby GT350 „hlöðufundur“ á uppboði

1357

Sögufrægt samstarf Caroll Shelby og Ford er ein af glæstari sögum kappaksturs í Bandaríkjunum sem og bílaiðnaðarins almennt. Allt frá árangri Shelby Daytona í LeMans til GT40 bar samstarfið einstaka ávexti. Einn þeirra var svo GT350, byggður á Mustang.

Verkkunnátta Shelby var nýtt óspart við hönnun sérútgáfu Ford Mustang sem kom nýr á markað 1965. Shelby breytti bílnum gríðarlega og úr varð hreinræktaður sportbíll í stað hefðbundins „muscle bíls“. Flestar breytingar Shelby voru á undirvagni og aksturseiginleikum bílsins. Shelby lækkaði og spengdi framfjöðrunina, setti traction bars að aftan og Koni dempara hringinn. Bremsur voru einnig uppfærðar og Detriot Locker mismunadrif sett í. Cobra K-code 289 cu (4.7L) Windsor V8 skilaði rétt rúmum 300 hestöflum. Yfirbyggingin var létt með húddi úr trefjagleri og gírkassinn var fjögurra gíra beinskipting. Innréttingin var nær óbreytt en þó voru aftursæti tekin úr og hilla sett í staðin auk þess sem skipt var um stýrishjól og kappakstursbelti sett í staðinn fyrir hefðbundin. Ekkert útvarp var í bílnum enda hefði það ekki yfirgnæft fallegt V8 hljóðið sem nú kom út úr púströrum á hlið bílsins.

66gt350velGT350 var því í raun allt annað villidýr en hefðbundinn Mustang hvað afköst varðaði. Á sínum tíma var GT350 vafalítið sá ameríski sportbíll sem hafði bestu aksturseiginleikana. Það var þó ekki nóg til að geðjast sumum sem kvörtuðu sáran undan því að bíllinn væri hastur og að hljóðið í mismunadrifinu væri að æra þá auk þess sem hávaðinn úr púströrunum var ekki til að bæta það.

Of lítill markaður

Ford gerðu sér grein fyrir því að markaðurinn fyrir svona bíl væri afar smár og vildu að Shelby breytti bílnum til að höfða til breiðari kúnnahóps í ljósi umkvartananna. Frá og með 1966 var byrjað að tóna bílinn niður, smátt í fyrstu. Núningur myndaðist milli Shelby og Ford sem endaði á því að Shelby yfirgaf verkefnið, ósáttur við nýja stefnu. Eftir það voru Shelby Mustangar frekar búnaðarpakkar en hreinræktaðir sportbílar líkt og fyrsta árið.

66gt350framanSíðustu málamiðlanalausu GT350 sem voru framleiddir voru 252 stykki smíðaðir á grunni 1965 Mustang fyrir módelár 1966. Þessir „yfirfærðu“ bílar eru eftirsóttir meðal safnara því þeir búa yfir afkastagetu ’65 árgerðarinnar auk nýrra fítusa sem komu með ’66 árgerðinni. Aflrásin var óbreytt utan þess að Detroit Locker mismunadrifið var nú valkvætt. Útliti bílsins hafði verið lítillega breytt en plexiglersgluggar komu í stað ristarhlera, loftinntök voru sett á hliðar til að veita lofti að afturbremsum og hliðarrendur voru nú límmiðar í stað þess að vera ámálaðar. Nú var val um að hafa aftursæti eða hillu og rafgeymirinn var kominn í húddið í stað skottsins áður auk þess sem mælaborðið hafi verið uppfært.

Yfirfærðu bílarnir eru í metum því þeir hafa „all the show and all the go“ eins og þeir segja vestanhafs, frá báðum árgerðum.

Eintakið sem um ræðir

Á uppboði Bonhams uppboðshússins á Greenwich Concours d’Elegance fágunarkeppninni í Connecticut á sunnudag verður einn af 252 yfirfærðu bílunum boðinn upp. Sá hefur aðeins verið í einu eins manns frá upphafi að nafni Francis Grayson. Fyrsta árið þjónaði bíllinn þó sem sýningar- og keppnisbíll Harr Ford umboðsins í Massachusetts sem fékk hann nýjan frá verksmiðju. 1967 kaupir Grayson svo bílinn en honum stóð einnig til boða Shelby „Dragon Snake“ Cobra bíll sem Harr Ford hafði sömuleiðis notað í keppnum. Grayson valdi GT350 vegna „hagkvæmninnar“.

66gt350aftanFrancis Grayson var bílaáhugamaður af lífi og sál og þekktur í senunni í heimaríki sínu Massachusetts sem mikill viskubrunnur. Hann starfaði sem verkfræðingur og hannaði hátalara fyrir Scott stereos og rafleiðslukerfi fyrir Bose auk þess að vera ráðunautur við hönnun dæla fyrir Millipore. Hann sleppti aldrei takinu af bílaáhuganum og hvunndags bíllinn hans við dauðadag var 550 hestafla Audi RS6 2003 árgerð en sá verður einnig boðinn upp á sama uppboði.

Grayson notaði GT350 bíl sinn bæði sem hvunndagsbíl sem og á kvartmílubrautinni. Hann tók allt viðhald afar alvarlega. Handbóka- og nótnastaflinn sem fylgir bílnum er 10 cm þykkur og telur allar nótur og handbækur úr sögu bílsins, þar með talið kaupnótu Grayson frá Harr Ford auk nafnspjalds mannsins sem seldi honum bílinn.

Í geymslu í fjóra áratugi

Bílnum var lagt 1976. Grayson ók honum inn í geymsluhúsnæði og þar hefur hann dvalið þar til nýlega en Grayson sagði engum hvar bíllinn væri niðurkominn fyrr en á dánarbeði. Enginn í fjöldskyldu Grayson hafði því séð bílinn í fjóra áratugi fyrr en í apríl í ár.

Þrátt fyrir að hafa vera frá New England, þar sem eru heldur bílfjandsamlegar aðstæður, er bíllinn í ágætis ástandi. Innréttingin er nær fullkomin en sætin eru alveg laus við sprungur og rifur. Upprunalegt lakk er á bílnum og er að mestu óskaddað og bíllinn er allur réttur en hurðir lokast vel. Vélarrýmið lítur þokkalega út og inniheldur alla réttu partana. Ryð er aðeins farið að segja til sín en ætti ekki að vera til trafala við að gera bílinn upp á sem upprunalegasta hátt. Upprunalegu Cragar Shelby felgurnar fylgja bílnum.

Ekki hefur verið gripið til neinna aðgerða til að gera bílinn ökuhæfan en hann er boðinn upp nákvæmlega eins og hann „vaknaði“ af dvala sínum.

Búist er við að bíllinn verði sleginn á 80.000-120.000 dollara, um 9,8-14,7 milljónir króna en hann er boðinn upp án lágmarksverðs.